Inngangur norðan megin við sjúkrahúsið í Vestmannaeyjum hefur verið opnaður á ný eftir lokun sem stóð yfir í nokkra mánuði vegna framkvæmda. Á þeim tíma var planið við innganginn malbikað og skipt um lagnir.
Inngangurinn norðan megin veitir aðgang að annarri og þriðju hæð sjúkrahússins. Á annarri hæð eru lyflækningar og dagdeild/göngudeild og á þriðju hæð er starfsemi sjúkraþjálfunar, heilbrigðisgagnafræðinga, ljósmæðra, sálfræðinga og annarra sérfræðinga.
Með þessum breytingum hefur verið lokað fyrir umferð í gegnum allt húsið, sem stuðlar að skýrari aðgreiningu þjónustu og markvissari stýringu á umferð innan sjúkrahússins. Kjallarinngangurinn sunnan megin við húsið er áfram eingöngu ætlaður heilsugæslu.
“Við viljum senda okkar bestu þakkir til nágranna spítalans, skjólstæðinga okkar og starfsfólks fyrir þolinmæði og skilning á meðan framkvæmdir stóðu yfir. Við erum spennt fyrir að geta boðið fólki sem á erindi á aðra eða þriðju hæð betra aðgengi á ný”, segir Jóna Björgvinsdóttir rekstarstjóri HSU í Vestmannaeyjum.
