Bæjarráð Vestmannaeyja hefur farið yfir drög að útboðsauglýsingu og valforsendum vegna uppbyggingar og reksturs heilsuræktar við Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja. Í kjölfarið var samþykkt að klára vinnu við útboðsgögn og auglýsa verkefnið á ný.
Þann 17. desember sl. kvað kærunefnd útboðsmála upp úrskurð í kærumáli sem varð til í kjölfar útboðs Vestmannaeyjabæjar vegna uppbyggingar og reksturs heilsuræktar við íþróttamiðstöðina.
Í júlí 2025 hafði bæjarráð þegar ákveðið að falla frá samningsgerð við World Class og þar með var útboðið, sem auglýst var í mars sama ár, ekki lengur í gildi. Sú ákvörðun var tekin í samráði við World Class og bæði kærunefndinni og kærendum tilkynnt um hana. Samkvæmt fundargerð bæjarráðs hefur úrskurður kærunefndarinnar því engin lagaleg áhrif gagnvart Vestmannaeyjabæ, þar sem útboðsferlinu hafði þegar verið hætt áður en endanleg niðurstaða lá fyrir.
Sjá einnig: Kærunefnd hafnar endurupptökukröfu – Eyjafréttir
Í úrskurðinum kemur fram að möguleg bótaskylda byggist á 119. grein laga um opinber innkaup og takmarkast við kostnað sem fellur til við undirbúning tilboðs og þátttöku í útboði, en nær ekki til efndabóta. Málskostnaður féll til þar sem World Class og kærendur vildu ekki falla frá málinu þrátt fyrir að útboðsferlinu hefði verið hætt. Vestmannaeyjabær er nú í viðræðum við World Class um að bera þann kostnað.
Niðurstaða bæjarráðs er að fela framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka vinnu við útboðsgögn í samræmi við umræður á fundinum og auglýsa útboðið í framhaldinu.
Þessu tengt: Heilsuræktarútboð í vinnslu – Eyjafréttir