Á morgun verður haldið áfram með sýningarröðina Vestmannaeyjar í gegnum linsu liðins tíma þar sem sýndar eru lifandi myndir frá Vestmannaeyjum, að mestu teknar á árunum 1950–1970. Myndefnið er afar fjölbreytt, segir í tilkynningu frá skipuleggjendum. Að þessu sinni má meðal annars sjá efni frá Þjóðhátíð, úr leikskólum, af listsýningum, frá bryggjulífi, skátastarfi og fleiru.
Vegna mikillar aðsóknar á fyrri sýningar hefur verið bætt við sjónvörpum og eru þau nú orðin þrjú, sem auðveldar gestum að fylgjast með á skjánum.
Kvikmyndirnar eru teknar af Lofti Guðmundssyni, Sveini Ársælssyni, Friðriki Jesson, Guðjóni Ólafssyni, Ósvaldi Knudsen og fleirum. Sem fyrr mun Arnar Sigurmundsson fjalla nánar um myndefnið og leiða umræður.
Sýningin og yfirferðin fara fram á morgun laugardag kl. 11 í Sagnheimum og lýkur um kl. 12, segir í tilkynningunni. Hér að neðan má sjá klippu með sýnishorni af því sem sýnt verður á morgun.