Eflum hugarfar, þrautseigju og trú nemenda á eigin getu

„Nú fer að líða að því að sumarið klárist og haustið taki við með öllu sem því fylgir. Það er alltaf ákveðin tilhlökkun þegar skóli hefst á ný, bekkjarfélagar hittast eftir gott sumarfrí og  kærkomin rútína fer aftur í gang. Nýir nemendur mæta í skólann í fyrsta bekk fullir tilhlökkunar og breytingar verða hjá mörgum nemendum sem færast jafnvel milli skólahúsa. Fara í nýjar kennslustofur, fá nýja kennara og jafnvel nýja bekkjarfélaga,“ segir Anna Rós Hallgrímsdóttir, skólastjóri Grunnskólans.

„Við í GRV erum spennt fyrir komandi vetri. Síðustu skólaár hafa verið skrýtin og einkennst af heimsfaraldri sem setti mikið strik í skólahaldið hjá okkur. Við erum vongóð um að það sé að baki og við taki loksins eðlilegt skólaár.

Þrátt fyrir heimsfaraldur lítum við mjög ánægð yfir síðustu ár hjá okkur, höfum áorkað heilmiklu. Spjaldtölvuinnleiðingin hefur gengið mjög vel og nú erum við komin með tæki á hvern nemanda í skólanum. Nemendur hafa núna annað hvort ipad eða chromebook-tölvu til afnota í skólanum og góðan aðgang að öðrum tækjum. Þetta hefur haft góð áhrif á skólastarfið og breytt kennsluháttum til hins betra. Kennarar hafa einnig góðan aðgang að tækjum og verkefnastjóra sem styður þá í starfsþróun í þessum efnum.

Þróunarverkefnið okkar Kveikjum neistann fór af stað haustið 2021 og fyrsta skólaárinu í því lauk í vor. Við erum mjög ánægð með þann árangur sem náðist í því verkefni og fyrstu niðurstöður gefa okkur góða vísbendingu um að við séum á réttri leið.

Þróunarverkefnið snýst um að bæta árangur í læsi og auka ánægju af lestri, auk þess að auka hreyfingu, grunnfærni í stærðfræði og náttúrufræði og vinna með gróskuhugarfar. Það er líklega stærsta áskorunin, að efla hugarfar þannig að þrautseigja og trú á eigin getu verði ofan á. Við þurfum öll að vinna saman og sameinast í að vilja hafa grunnskóla hér í Vestmannaeyjum sem er í fremstu röð og að nemendur útskrifist frá okkur fullir sjálfstrausts og vellíðunar,“ sagði Anna Rós.

 

Mynd: Myndarlegur hópur tíundu bekkinga sem úskrifaðist frá GRV í vor.

 

Nýjustu fréttir

Sigurður Guðmundsson á Hljómey í ár
Jákvæðar umræður um Eyjagöng á Hvolsvelli
Eyjakona og drottning íslenskrar knattspyrnu
Bæjarstjórnarfundur í beinni
Andri Erlingsson til Kristianstad
Verulegur munur á tilboðum í flóðlýsingu Hásteinsvallar
Minningar um gos – söngvar og sögur í Eldheimum
„Fínasti vertíðarfiskur”
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.