Gleðilega hátíð.
Nú er aðventan enn einu sinni gengin í garð og jólin komin; þau fyrstu síðan 2019 án samkomutakmarkana. Samvera með fjölskyldunni er verðmæt og jólahátíðin býr til margar fjölskyldustundir sem skapa minningar með okkar besta fólki. Það er einmitt ekki síst á stórhátíðum eins og jólum og áramótum sem við finnum hvað þessi nánd við ástvini er okkur dýrmæt.
Árið sem nú er að renna sitt skeið hefur á margan hátt verið gjöfult og gott fyrir okkur sem erum svo heppin að búa hér í Vestmannaeyjum. Að byggja upp gott samfélag er langhlaup og mikilvægt að halda áfram á þeirri braut sem við höfum verið á. Það mun heldur ekki skorta spennandi verkefni og ögrandi áskoranir á nýju ári!
Allir Vestmannaeyingar sem aldur hafa til muna eftir að hafa labbað um miðbæinn í aðdraganda jólanna og heyrt hina ljúfu jólatónlist sem ómaði frá jólabjöllunni sem strengd hafði verið upp á milli kaupfélagshúsanna. Hún var einstaklega jólaleg og hátíðleg og rammaði inn miðbæinn. Hún er horfin en í staðin er komin fallegur miðbæjarbogi. Ég ólst upp á Vestmannbrautinni og þegar trúðurinn var komin í gluggann hjá Axel Ó. þá vissi ég að það styttist í jólin. Hann er enn að gleðja börn og leika listir sínar eins og hann hefur gert síðan 1964. Annað minningabrot í aðdraganda jóla eru ferðirnar til Gerðu á Múla í búðina hennar, þar voru gersemar sem stundum enduðu í jólapakka undir tré. Ég man sérstaklega eftir forláta Barbí fataskáp sem við systur fengum saman í jólagjöf. Búðin hennar Gerðu var mikill ævintýraheimur allt árið um kring en alveg sérstakur á aðventunni. Það eru þessar hefðir, þessir föstu punktar, sem gleðja í aðdraganda jólanna og búa til hina sönnu jólastemmingu.
Bæjarstarfsmenn hafa einnig lagt mikið á sig til að fanga jólaandann. Nærtækast er að minna á jólaskreytinguna úr gömlu Rafveitunni við Heimagötu, eða eftirlíkingu af þeirri sem fór undir hraun, sem Jóhann Jónsson, Jói í Laufási og strákarnir í Þjónustumiðstöðinni, settu fyrst upp á nýja hraunið fyrir jólin 2018. Staðsetning hennar er einstaklega viðeigandi og núna finnst manni að jólin séu komin þegar kviknar á ljósunum ofan á hrauninu sem hylur gamla staðinn.
Á undanförnum árum hafa íbúarnir lagt jafnvel enn meira upp úr skreytingum við hús sín og ýmiskonar ævintýragarðar verða til í kringum hátíðarnar. Allur bærinn fyllist strax á aðventunni af notalegri stemmingu eins og sjá mátti þegar kveikt var á jólatrénu tæpum mánuði fyrir jól. Sá mikli fjöldi sem þá kom saman er vitnisburður um sameiginlegan jólaanda.
Um leið og ég óska öllum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs ber ég fram þá von að sá kærleiksandi sem fylgir jólunum sé með okkur ekki bara yfir jólahátíðina heldur allt árið.
Kærleikskveðja
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri.
Myndina tók Addi í London í gærkvöldi þegar miðbærinn iðaði af mannlífi.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst