Krabbavörn Vestmannaeyja stóð fyrir hinni árlegu ljósagöngu á Eldfell fimmtudaginn 20. nóvember. Ljósagangan er til að sýna samstöðu, samveru, samtakamátt og til að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein En í fyrra mættu um eitt hundrað manns í frábæru veðri.
Ákveðið var að gangan yrði farin í hvaða veðri sem er, sem er lýsandi fyrir baráttuna sem margir þurfa að ganga í gegnum. Núna var myrkur, rigning og rok, en það var ákveðið að ganga fyrir því. Rúmlega tuttugu manns lögðu af stað frá rótum Eldfells og flestir fóru alla leið, þar á meðal nokkrir björgunarsveitamenn. En það var ekki veður fyrir myndatöku þar sem varla var stætt. Stjórn Krabbavarnar skilur vel að fólk hafi ekki treyst sér út í þetta veður og mikið þakklæti eiga þau skilið sem gengu og urðu vot. Nokkrir komu svo niður í Arnardrang og þáðu heitt kakó og meðlæti. Þar var ætlunin að kveikja á kertum til að minnast þeirra sem látist hafa úr krabbameini og standa með þeim sem eru að glíma við krabbamein. Kertin bíða og við finnum góðan tíma á nýju ári til að nota þau.
Að ganga upp á fjall. Við sjáum fjallið, það er fallegt og spennandi að komast á toppinn. En þegar við förum að ganga sjáum við svo stutt áfram, þoka, grjót og hindranir, við missum sjónar á toppi fjallsins, en við þurfum að halda áfram. Þannig er lífið, við höfum áætlað eitthvað, en síðan mæta okkur hindranir og áföll, eins og glíma við krabbamein þá verður samt að halda áfram þó á móti blási. Baráttan er oft erfið.
Krabbavörn hefur mikla velvild og vill stjórnin þakka öllum þeim sem hafa stutt félagið á árinu.
Þakkir og jólakveðjur frá Krabbavörn Vestmannaeyja.
Þóranna M. Sigurbergsdóttir formaður.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst