Jólahvísl verður haldið í Vestmannaeyjum sunnudaginn 21. desember nk.. Viðburðurinn hefur á undanförnum árum fest sig í sessi sem hluti af aðventunni hjá mörgum Eyjamönnum. Um er að ræða lágstemmdan jólatónleikaviðburð þar sem áhersla er lögð á notalega stemningu, vönduð hljómgæði og boðskap jólanna.
Helgi Tórz, einn af aðstandendum Jólahvíslsins, segir hugmyndina á bak við viðburðinn einfalda. „Jólahvísl er þéttur og samheldinn hópur sem kemur saman ár hvert til að gleðja bæjarbúa með notalegum og hlýjum jólatónleikum.“
Jólahvísl hefur verið haldið árlega frá árinu 2016 og hefur þróast jafnt og þétt síðan þá. Að sögn Helga hefur grunnurinn haldist sá sami, þó alltaf séu lagðar áherslur á nýjungar. „Í fyrra bættum við sviðs-uppsetninguna og í ár leggjum við sérstaka áherslu á lýsinguna. Hópurinn er orðinn svo samstilltur að undirbúningurinn gengur mun auðveldar en áður.“
Margir listamenn hafa komið fram á Jólahvísl í gegnum árin, en Elísabet og Guðný hafa sungið á tónleikunum frá upphafi. „Það hefur verið gaman að fylgjast með því hvernig þær hafa vaxið og þroskast sem tónlistarkonur í gegnum árin.“
Bak við Jólahvíslið stendur stór hópur fólks sem leggur sitt af mörkum ár hvert. Alls hafa yfir 100 manns komið að tónleikunum frá upphafi í ýmsum hlutverkum.
Í ár verða tíu söngvarar á sviði, húsband skipað fimm tónlistarmönnum og tveir hljóðmenn sjá um hljóðvinnslu. Þá kemur fjöldi einstaklinga að framkvæmdinni bak við tjöldin, auk þess sem tónleikarnir eru teknir upp á mynd og ljósmyndari fangar stemninguna. „Samtals eru þetta um 30–40 manns sem taka þátt á einn eða annan hátt í ár,“ segir Helgi.
Helgi segir mikilvægt að Jólahvísl sé stund þar sem fólk geti staldrað við í annasömum aðdraganda jóla. „Við viljum að fólk komi, njóti stundarinnar með okkur í notalegu andrúmslofti og fari svo inn í jólin með kærleik í hjarta.“
Að hans mati er aðventan kjörinn tími fyrir slíkann viðburð. „Aðventa er vænting. Við bíðum eftir jólunum og flest okkar vænta friðar, kærleika og samveru. Fyrir okkur er boðskapur jólanna mikilvægur og með Jólahvísli viljum við leggja áherslu á hann.“
Viðtökur samfélagsins hafa verið afar góðar frá upphafi og segir Helgi það gefandi að finna hvernig fólk bregst við viðburðinum. „Fólk gleymir sér um stund og fær smá pásu frá jólastressinu.“
Spurður um eftirminnileg augnablik nefnir hann eitt atriði sem stendur upp úr. „Þegar Elísabet og Guðný fluttu lagið Fagra blóma við íslenskan texta eftir mig. Sú stund var afar áhrifarík.“
Jólahvísl er haldið sem gjöf til samfélagsins og hefur sú hugsun verið leiðarljós frá upphafi. „Jesús er stærsta gjöfin sem við höfum fengið og við viljum gefa áfram til annarra,“ segir Helgi. Aðspurður hvernig hann myndi lýsa Jólahvísli í fáum orðum svarar hann: „Æðisleg kósý stund.“
Til framtíðar vonast hann til að fólk upplifi áfram Jólahvísl sem viðburð sem færi jólin nær. „Að Jólahvísl komi með jólin til fólks, í hógværð og auðmýkt, og fylli salinn og hjörtun af friði.“
Tónleikarnir verða eins og áður segir á sunnudaginn. Húsið opnar klukkan 20.00 og tónleikarnir hefjast hálftíma síðar.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst