Það hefur alla tíð verið áskorun að búa í Eyjum og ekki sjálfsagt mál að innviðir séu í lagi. Til að tryggja þá velmegun sem hér er hefur þurft fólk með skýrar hugsjónir, öflug markmið og tilbúið til þess að færa tíma og fórnir fyrir þá sem hér búa.
Þegar rætt er við fólk um það hvað gera megi til að fjölga íbúum í bæjarfélaginu heyrast furðuoft efasemdir um að það sé yfir höfuð hægt. Skortur á húsnæði, einhæf atvinnutækifæri og svo þetta sígilda um samgöngur og heilbrigðismál.
Hér er fyrst og fremst um verkefni að ræða, sem öll haldast í hendur, en ekki vandamál.
– Huga þarf að nýjum leiðum við skipulagningu lóða víðar á eyjunni ásamt því að kanna möguleika á að grafa út hraun.
– Fjölga þarf möguleikum þeirra sem vilja minnka við sig húsnæði. Það eykur möguleika á að fá ungt fólk heim þegar stærra húsnæði losnar.
– Tryggja þarf örugga og sjálfbæra orku.
– Auka enn við fjarvinnustöðvar.
– Klára þarf framtíðarsýn í samgöngumálum þar sem göng verða í fyrirrúmi sem næsta lausn.
– Hraða þarf aðkomu líftækni að sjávarútveginum. Það hefur gefist vel víða annars staðar til að sækja þekkingu inn í bæjarfélög og styðja enn frekar við uppbyggingu sjávarútvegsins.
Ekki er um tæmandi upptalningu að ræða. Þó er allt sem ég nefni hér að ofan frekar augljóst fyrir flestum og nákvæmlega það sem rætt erum í pólitíkinni. Þetta eru líka flókin mál sem taka tíma og vel hægt að gera mistök á leiðinni, en boðleiðir hér eru stuttar og við erum því fljót að átta okkur á því ef beygja þarf aftur inn á rétta leið.
Fleiri íbúar í Eyjum þýða t.d.
– aukna möguleika á að halda úti ferðaþjónustu, verslun og veitingastöðum allt árið.
– aukið útsvar og öflugri þjónusta á vegum sveitarfélagsins.
– að auðveldara er að viðhalda þjónustu ríkisins á eyjunni.
– aukin pressa á ríkið að bæta úr fæðingarþjónustu.
– aukin pressa á ríkið að taka næstu skref í samgöngumálum.
Ég læt með þessu fylgja mynd sem minnir mig á að hlutirnir hafa hreint ekki alltaf verið eins og þeir eru núna og að breytingar sem styrkja innviði og auka lífsgæði eru hreint ekki ómögulegar heldur þvert á móti verkefni. Hér hefur alltaf búið fólk sem er tilbúið að leysa þessi verkefni og nú er krafan um slíkt ekkert minni. Uppbyggingin heldur áfram. Áfram gakk.
Gísli Stefánsson
Formaður Sjálfstæðisfélags Vestmannaeyja
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst