Eyjamenn fengu FH í heimsókn í gær í öðrum leik liðanna í áttaliða úrslitum Olís-deildarinnar. ÍBV sigraði fyrri leikinn með fimm marka munn 23-28. Það var því að duga eða drepast fyrir FH.
Heimamenn tóku fljótlega frumkvæðið í leiknum leiddu nánast allan leikinn og höfðu sjö marka forystu í hálfleik 19-12. Síðari hálfleikur var svo meira af því sama og á tímabili virtust liðin skora að vild, lokatölur 36-28.
Sigurbergur Sveinsson var markahæstur í liði ÍBV með 8 mörk. Aðrir markaskorarar voru Gabríel Martinez – 6, Kristján Örn Kristjánsson – 5, Hákon Daði Styrmisson – 5, Kári Kristján Kristjánsson – 4, Dagur Arnarsson – 3, Elliði Snær Viðarsson – 2, Fannar Þór Friðgeirsson – 1, Magnús Stefánsson – 1 og Friðrik Hólm Jónsson – 1.
Björn Viðar Björnson, markvörður ÍBV, hefur átt stórleik í einvíginu en þrátt fyrir að skoruð væru 28 mörk í gær varði hann 12 skot í leiknum og 21 í fyrri leik liðanna. Af sex vítum í einvíginu varði hann fjögur.
Mögnuð stemning var á leiknum í gær undir stjórn Hvítu-riddaranna. Nú er bara að treysta á hana áfram og bæta í þegar ÍBV mætir annað hvort Haukum eða Stjörnunni í undanúrslitum, en þau lið mætast í oddaleik á morgun miðvikudag.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst