Eyjafréttir hafa undanfarna daga fjallað um áhrif nýrrar orkuverðskrár í Vestmannaeyjum og birt m.a. fréttaskýringu þar sem rýnt var í skjöl sem liggja að baki lagningu nýrra raforkustrengja til Eyja. Í kjölfarið leituðu Eyjafréttir svara hjá Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra Vestmannaeyja, um forsendur verkefnisins og hvort þær hafi verið nægilega skýrar.
Að sögn Írisar hafa bæjaryfirvöld um langt skeið haft það sem forgangsmál að bæta afhendingaröryggi raforku fyrir heimili og fyrirtæki í Vestmannaeyjum, ekki síst í ljósi þeirrar alvarlegu stöðu sem kom upp þegar raforkustrengurinn VM3 bilaði í janúar 2023.
Hún segir að sú bilun hafi kallað á endurskoðun á öllu flutningskerfinu, og í kjölfarið hafi farið fram umfangsmikil umræða og fundir með ráðherra og Landsneti. Málið hafi verið margsinnis rætt í bæjarráði og bæjarstjórn og bókanir gerðar áður en skýrsla starfshópsins lá fyrir.
„Þessir tveir strengir eru áralangt baráttumál bæjaryfirvalda og hagaðila,“ segir Íris og bætir við að þeir séu meðal annars ein af forsendum uppbyggingar hjá Laxey í Vestmannaeyjum. Þá hafi framtíðarorkuþörf verið metin umfram það sem einn strengur gæti flutt.
„Eins og fram kemur í skýrslunni, á bls. 11, var verkefnið komið af stað hjá Landsneti fyrir útgáfu skýrslunnar, var það komið á inn á framkvæmdaáætlun í kerfisáætlun Landsnets, en var flýtt um 2 ár vegna stöðunnar á VM3.“
Aðspurð um þá niðurstöðu skýrslu starfshópsins að færsla notenda yfir í forgangsflutning myndi skila auknum tekjum segir Íris að starfshópurinn hafi gert ráð fyrir aukinni notkun samhliða mikilli uppbyggingu í atvinnulífinu, líkt og almennt sé í slíkum framkvæmdum.
Hún bendir á að gjaldskrá fyrir skerðanlegan flutning sé aðeins í boði þar sem ekki er hringtenging í flutningskerfi, og að tveir strengir þýði slíka hringtengingu. Íbúar hafi ávallt keypt raforku á forgangsflutningi og þar sé engin breyting.
Skýrslan hafi verið kynnt ítarlega á íbúafundum og þar hafi verið gert ráð fyrir auknum kostnaði, enda kosti stórbætt afhendingaröryggi sitt.
„Það var hins vegar aldrei gert ráð fyrir að fara á þessa háu gjaldskrá og svona mikilli hækkun í einu,“ segir Íris. Hún segir að rætt hafi verið um svokallaða „milligjaldskrá“, sambærilega þeirri leið sem farin hafi verið í raforkusölu þar sem skerðanleg orka sé að hverfa sem söluvara.
Varðandi viljayfirlýsinguna frá febrúar 2024 segir Íris að allir hagaðilar hafi haft það sameiginlegt markmið að tryggja lagningu strengjanna og bæta raforkuöryggi. Allir hafi gert sér grein fyrir því að einhver hækkun yrði óhjákvæmileg, en jafnframt verið skýrt að ekki yrði borgað hvað sem er fyrir flutning og raforku.
Hún segir að flutningskostnaður hafi ekki verið útfærður í viljayfirlýsingunni þar sem hann hafi ekki legið fyrir á þeim tíma. Hins vegar hafi verið rætt um sérstaka millileið í gjaldtöku, meðal annars með hliðsjón af samkomulagi við Landsvirkjun um raforkukaup til dreifiveitna.
Íris leggur áherslu á að Vestmannaeyjar séu kalt svæði þar sem raforka sé notuð bæði til lýsingar og húshitunar, og að lagning strengjanna eigi ekki að leiða til hækkunar á húshitunarkostnaði í Eyjum. Það hafi verið skýrt frá upphafi og hafi verið tekið upp við Landsnet og ráðherra.
Hún bendir jafnframt á að gjaldskrá fyrir flutning raforku til íbúa og Vestmannaeyjabæjar sé óbreytt, þar sem alltaf hafi verið keyptur forgangsflutningur. Áhrifin snúi hins vegar að skerðanlegum flutningi sem HS Veitur hafi nýtt til varmaorkuframleiðslu fyrir húshitun.
Aðspurð um stöðuna í dag, þar sem Herjólfur hefur hætt rafhleðslu í Vestmannaeyjum og atvinnurekendur lýsa stöðunni sem erfiðri, segir Íris að lagning strengjanna skipti Vestmannaeyjar öllu máli og að enginn vilji endurskoða þá ákvörðun.
Hún segir að allir hagaðilar séu meðvitaðir um verkefnið og stöðuna, en bendir jafnframt á að ekki sé einungis flutningskostnaður sem vegi þungt, heldur einnig hátt verð á raforkunni sjálfri.
„Það þarf að spyrja hagaðilana sjálfa hvort þeir vilji einhverju breyta, enda rituðu þeir undir viljayfirlýsinguna,“ segir Íris. Hún bætir við að áfram þurfi að knýja á um hagsmuni kaldra svæða og að nauðsynlegt sé að ná því markmiði að verð á raforku með flutningi verði hið sama óháð búsetu.
Að lokum segist hún binda vonir við að ráðherra fari í þá vegferð á yfirstandandi vorþingi, enda þurfi landsbyggðin á slíkri jafnræðislausn að halda.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst