Nú liggur fyrir skýr og endanleg niðurstaða í mikilvægu eignarhaldsmáli Vestmannaeyjabæjar. Staðfest hefur verið að allar eyjar og sker í Vestmannaeyjum, að Surtsey undanskilinni, teljist eignarlönd í skilningi 1. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, sbr. jafnframt a-lið 7. gr. laganna.
Niðurstaðan tekur jafnframt til eyja og skerja sem liggja utan svonefndra strandlína, það er fjær landi. Þrátt fyrir það teljast þær eignarland Vestmannaeyjakaupstaðar.
Þar á meðal eru allar eyjar Vestmannaeyja, þ.m.t. Heimaey, Elliðaey, Faxasker, Bjarnarey, Litli-Stakkur og Stóri-Stakkur, Suðurey, Álsey, Brandur, Hellisey, Geldungur, Súlnasker, Geirfuglasker, Smáeyjar, Þrídrangar og Einidrangur, auk nærliggjandi skerja og dranga.
Að sögn Jóhanns Péturssonar, annars tveggja lögmanna Vestmannaeyjabæjar, er hér um fullnaðarsigur að ræða.
„Þetta er fullnaðarsigur enda voru eignarheimildir okkar sterkar frá upphafi. Með þessari niðurstöðu er staðfest að Heimaey og allar úteyjar eru eignarland Vestmannaeyjakaupstaðar,“ segir Jóhann.
Hann bætir við að niðurstaðan skipti miklu máli fyrir bæinn, bæði hvað varðar skýra stjórnsýslu og framtíðarnýtingu lands og náttúruauðlinda á svæðinu.
Áréttað er að Surtsey er undanskilin þessari niðurstöðu, líkt og áður hefur gilt, enda fellur eyjan undir sérstakt verndarsvæði og sérreglur.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst