Sem „AKP“ (aðkomupakk) í Vestmannaeyjum hefur það verið mikil gæfa að fá að kynnast samfélaginu með augum gestsins og nú sem íbúi. Móðir mín, borin og barnfædd í Eyjum, flutti héðan í gosinu og ég held það hafi alltaf verið skrifað í skýin að ég myndi einn daginn verða AKP-íbúi í Eyjum í fótsporum hennar og forfeðra minna, þá sérstaklega þegar ég varð tengdasonur Sibba Nínon fyrir rúmum tug ára. Það hefði þurft að taka mynd þegar skrifstofublómið ég, tók fyrst í hendurnar á sjómannshrömmunum hans Sibba. Skrifstofublómið átti ekki sjéns. Síðan þá hef ég þó afrekað að fara sólarhrings loðnutúr á Sigurði VE (þar sem ég hékk bara upp í brú) og síðar gert heiðarlega tilraun til að gera upp Haukaberg, með merkilega ágætum árangri, svona miðað við að eiga einungis einn hamar þegar sú ákvörðun var tekin, og verandi skrifstofublóm (og fæddur í Keflavík).
Á þessum fjórum árum hef ég kynnst ótrúlegum fjölda fólks, í gegnum vinnuna, í gegnum Hljómey, Kiwanis, golfið eða bara með því að setjast í vinalegan öl á Brothers. Það er nefninlega þannig að ef maður er til í að vera með, þá er samfélagið í Eyjum fljótt að taka mann, AKP skrifstofublóm úr Keflavík, undir sinn verndarvæng. Það eru forréttindi og alls ekki sjálfsagt.
Nú hef ég í fjögur ár lifað á því boðorði að segja aldrei nei í Vestmannaeyjum, þegar ég get sagt já! Og þvílíka veislan! Nýlegast já-ið mitt var þegar ég var beðinn um að taka sæti í stjórn Eyjasýnar, félagsins sem gefur út Eyjafréttir. Og af því ég er jákvæður þá tók ég að mér stjórnarformennsku í félaginu í kjölfarið og hef sinnt því undanfarna tvo mánuði. Frá þeim degi hef ég viljað koma út úr mér nokkrum orðum og er þessi aðsenda grein (frá AKP skrifstofublómi úr Keflavík) margrituð og endurrituð. Ég vil nefninlega einhvernveginn koma því frá mér, til þín, hversu miklu máli Eyjafréttir skipta fyrir samfélagið í Eyjum. Ég gæti nefnt sagnarhefð, saga samfélagsins, menning og allskonar fín orð og flækjur. Ég las hins vegar grein fyrir mörgum árum, í Fréttablaðinu sáluga, sem er fyrsta og eina greinin sem ég hef klippt úr blaði og hengt upp á ísskáp. Greinin var skrifuð af Berg Ebba og hafði yfirskriftina, „Það er til fólk“. Ég ætla að stílstela og skil ykkur eftir með eftirfarandi:
Það er til fólk sem talar aldrei um veður, heldur klæðir sig bara eftir því ástandi sem veðrið býður upp á hverju sinni. Það er til fólk sem hefur aldrei sagt orð um Herjólf, hefur aldrei athugað ölduhæð né heyrt orðið „lengd öldu“. Það er til fólk sem hefur aldrei farið á Þjóðhátíð og heldur að Eyjamenn gisti í hvítu tjöldunum, eins og þeir séu í útilegu í Hallormsstað. Það er til fólk sem borðar ekki lunda af því þeim finnst hann vondur á bragðið og kallar Vestmannaeyska brauðtertu samloku. Það er til fólk sem hefur aldrei týnt dósir á laugardagsmorgni í Herjólfsdal, nema til að lengja í djamminu. Það er til fólk sem getur keypt málningu á sunnudögum, eða tréskrúfur og blóm. Það er til fólk sem hefur aldrei gefið kindum brauð, bara öndum. Það er til allskonar fólk.
Eyjafréttir segja sögu hinna. Þeirra sem vinna sjálfboðavinnu fyrir íþróttafélögin, svo börnin geti stundað íþróttir. Þeirra sem klífa klettana í leit að eggjum. Þeirra sem standa að stærstu útihátíð á Íslandi og þeirra sem týna dósir og rusl úr Dalnum á hverjum degi á hátíðinni til að styrkja íþróttafélögin. Sögur þeirra sem kaupa Kiwanis nammið á hverju ári og gleðja barnabörnin. Allra þeirra sem byggja upp og bera samfélagið í Vestmannaeyjum. Þeirra sem byggðu það upp og þeirra sem hreinlega þurfa ekki málningu, tréskrúfur eða blóm á sunnudögum, því í akkúrat því felast lífsgæði.
Ætlar þú í alvöru ekki að vera með?
Hér má gerast áskrifandi að Eyjafréttum – vertu með.
Bestu kveðjur,
Guðmundur Jóhann Árnason
Stjórnarformaður Eyjasýnar og AKP skrifstofublóm.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst