Árið 2023 byrjaði með mikilli kuldatíð hér í Eyjum þar sem allt fór á kaf í snjó, og í sjálfu sér hefði ég eiginlega frekar viljað það heldur en þennan klaka sem er hérna núna, en þetta stóð nú stutt yfir.
Vertíðin var eins og árið allt, allt fullt af fiski, vantar bara aflaheimildir.
Lundinn kom á sínum tíma og í gríðarlegu magni eins og síðustu ár. Sjálfur komst ég til Grímseyjar í lok júlí, enn eitt árið og það er svo skrítið að maður er varla farinn frá Grímsey, þegar manni er farið að langa til að koma þangað aftur.
Pysjufjöldinn í Eyjum í ár var í lægri kantinum miðað við síðustu ár, en samt mun meiri heldur en hrun árin 2008-2013.
Í fyrsta skipti á ævinni skellti ég mér á strandveiðar í sumar og upplifði þetta ævintýri sem strandveiðarnar eru, en það voru gríðarleg vonbrigði að enn og aftur eru veiðarnar stöðvaðar áður en tímabilinu er lokið. Og enn og aftur fór ég á línuveiðar í haust og náði í einhver 30 tonn, en kvótaleigan er orðin tómt rugl og ofboðslega erfitt að hafa eitthvað út úr þessu.
Gengi fótboltaliða okkar voru gríðarleg vonbrigði, vægast sagt. Vonandi verður það betra á næsta ári.
Í handboltanum hins vegar, náðum við frábærum árangri.
Í haust rættist síðan draumur konunnar um að fara í ævintýraferð til Egyptalands og fórum við m.a. í siglingu á Níl, úlfaldareið og kláruðum svo ferðina á brúðkaupafmælisdaginn með því að heimsækja Konungadalinn ásamt ýmsum hofum.
Árið hefur því bara verið nokkuð gott, þrátt fyrir að við Eyjamenn höfum, eins og svo oft áður, lent í vandræðum með samgöngurnar hjá okkur og auk þess vorum við í vandræðum með rafmagn síðasta vetur og vatnið hugsanlega þennan vetur, þannig að ýmislegt hefur gengið á.
Vonir og væntingar fyrir 2024.
Pólitíkin: Já, ég er í Flokki fólksins, varaþingmaður, fékk reyndar ekki að leysa neitt af á síðasta ári en vonandi verður það á nýja árinu. Margir stjórnmálaspekingar spá því reyndar að ríkisstjórnin muni springa í vetur og að það verði kosið í vor, en ég er nú ekki eins viss um það, enda þekkt að ríkisstjórnir sem engjast um í dauðastríðinu og hafa ekkert fram að færa, hanga nú á því bara stólanna vegna en það kemur annars bara í ljós. Hef reyndar aðeins verið að kynna mér frumvarp Matvælaráðherra um breytingar á kvótakerfinu og ég auglýsi hér með eftir einhverjum Vinstri grænum, sem veit hvað er að gerast með þennan flokk, en frumvarpið er fyrst og fremst árásir á trillukarla og ekkert annað eiginlega í því.
Vonandi verður mikið af lunda í sumar eins og í fyrra og vonandi verður af pysju og helst meira heldur en í fyrra.
Vonandi gengur okkur betur í fótboltanum í sumar heldur en í fyrra.
Samgöngumálin okkar eru, eins og oft áður, mikið í umræðunni og sjálfur er ég nú eiginlega hættur að nenna að svara öllu því bulli, sem maður sér á fésinu, en vonandi verða tekin alvöru skref í áttina að alvöru lausnum á samgöngumálum okkar á nýja árinu og vonandi heldur vatnsleiðslan þangað til við fáum nýja.
Annars verður árið 2024 risastórt ár hjá árgangi 1964 og klárlega verður eitthvað um stór veislur hjá árganginum. Reyndar var árgangurinn óvenju stór á sínum tíma, en um leið ótrúlega margir sem er horfnir af sjónarsviðinu og það allt of margir á jafnvel besta aldri.
Óska öllum Eyjamönnum og landsmönnum gleðilegs nýs árs.
Georg Eiður Arnarson
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst