Á síðasta fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja var rætt um framvindu Sköpunarhúss, nýs verkefnis sem miðar að því að efla listsköpun barna og unglinga. Húsið verður staðsett í félagsmiðstöðinni við Strandveg og býður upp á tækifæri í tónlistarsköpun, myndbandagerð og útgáfu tónlistar. Hluti búnaðarins er þegar til staðar, en enn þarf að fjárfesta í tækjum og tryggja launakostnað.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins segir að mikilvægt sé að hefja starfsemi Sköpunarhúss sem fyrst, helst á haustmánuðum, til að nýta reynslu úr æskulýðs- og tómstundastarfi við mat á fjárþörf og umfang verkefnis fyrir fjárhagsáætlun 2026. Fulltrúarnir leggja til við bæjarráð að tryggja 500.000 krónur til launakostnaðar strax og að verkefnið verði tekið inn í fjárhagsáætlun næsta árs.
Í bókun fulltrúa E- og H-lista segir að þeir styðji leið meirihluta fjölskyldu- og tómstundaráðs um að verkefnastjóri æskulýðs- og tómstundamála móti framkvæmd og fyrirkomulag verkefnisins í samráði við framkvæmdastjóra sviðsins. Mikilvægt sé að vanda verkið og að ákvörðun um aukningu stöðugilda verði tekin inn í fjárhagsáætlun fyrir 2026, með það að markmiði að hægt verði að hefja starfsemi Sköpunarhúss í janúar 2026.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst