Nú á dögunum hitti ég góðan vin minn á rölti niðri í bæ. Við njótum þess oft að ræða um stjórnmál en erum ekki samherjar á þeim vettvangi. „Jæja, Raggi minn,“ sagði hann strax, „nú er illa komið fyri þínum flokki, hann er bókstaflega að hverfa. Það er ekkert skrítið því hann hefur ekkert gert af viti síðan hann settist í ríkisstjórn fyrir 7 árum.“
„Ertu til í að hlusta á smá upptalningu um nokkrar staðreyndir?“ sagði ég og hann féllst á það, enda kurteis maður. „Gott og vel,“ sagði ég. Hér nefni ég nokkur þeirra mála sem Vinstrihreyfingin- grænt framboð hefur haft forystu um á síðustu árum.
- Fumlaus og ákveðin viðbrögð við Covidfaraldrinum hér á Íslandi vöktu athygli um allan heim.
- Í náttúruhamförunum á Reykjanesi var unnið að björgunaráætlun sem hefur vakið athygli fyrir öryggi og vel skipulögð vinnubrögð.
- Félagslegur húsnæðisstuðningur hefur verið aukinn og húsnæðisbætur hækkaðar.
- Mikilvægar lagabreytingar hafa verið samþykktar til að berjast gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi; þar á meðal um kynferðislega friðhelgi, umsáturseinelti, barnaníðsefni, hatursorðræðu, mismunun, réttarstöðu brotaþola og mansalsákvæði.
- Mannréttindastofnun Íslands hefur verið stofnuð.
- Fyrsta landbúnaðarstefnan hefur verið samþykkt á Alþingi.
- Mestu kerfisbreytingar sem gerðar hafa verið á stuðningskerfi barna í áratugi hafa náð fram að ganga.
- Þriggja þrepa skattkerfi hefur verið tekið upp að nýju með lágtekjuþrepi og fjármagnstekjuskattur hækkaður
- Frítekjumark vegna atvinnutekna öryrkja hefur verið hækkað hækkað úr 110.000 kr. í 200.000 kr. eftir kyrrstöðu í 14 ár.
„Þetta eru einungis sýnishorn af þeim málum sem VG hefur haft forystu um í ríkisstjórninni á síðustu árum. Þau eru auðvitað mun fleiri og við getum rætt þau síðar, minn kæri ef þú vilt,“ sagði ég. „Þú segir nokkuð,“ sagði hann, „ en nú verð ég að fara því ég er að verða of seinn á fund.“
Ragnar Óskarsson