Vélbáturinn Olga VE 239 var smíðaður í Vestmannaeyjum árið 1920 og var á þeim tíma með stærri vélbátum eða 14 tonn.
Bræðurnir Magnús, Guðmundur, Gunnar Marel og Þórður Jónssynir voru í hópi fremstu skipasmiða Vestmannaeyja á fyrstu áratugum 20. aldar. Magnús og Guðmundur smíðuðu Olgu í fjörunni við Skiphella. Báturinn sökk 7. mars árið 1941 eftir ásiglingu af ljóslausum breskum togara og fórst með honum Eyjamaðurinn Sigurður Bjarnason frá Djúpadal. Sigurður var aðeins 22 ára að aldri.
Bátalag Olgu er vestmannaeyskt bátalag. Á þessum tíma voru allir bátar, óháð stærð, byggðir með þessu lagi.
Bekkirnir sem verða á svæðinu við Nausthamarsbryggju og Edinborgarbryggju eru steyptir eftir þessu bátalaga. Frosti Gíslason fór enn lengra með verkið og tengdi það við verkefnið Sjávarsamfélagið.
Fram kemur á Facebook síðu Vestmannaeyjahafnar að verkefni þetta hefur verið samvinnuverkefni Fab Lab Vestmannaeyjar Iceland, Vestmannaeyjahafnar og starfsmanna Trélistar þeirra Þórðar Svanssonar og Ingimars Georgssonar. Tryggvi Sigurðsson lánaði okkur bátalagið sem nýtt var til að búa til mótið fyrir bekkina en Tryggvi var til skrafs og ráðagerða í ferlinu
.
Verkefnið þetta er eitt af þeim verkefnum sem við höfum unnið að til að fegra hafnasvæðið og halda á lofti sögu Vestmannaeyjahafnar.
Myndir af facebook síðu Vestmannaeyjahafnar: