„Þetta er EINARSSON bekkur sem er á lokametrum og verður til sölu hjá JAX Handverk. Bekkurinn er hannaður af langafa, Jóni Einarssyni frá Berjanesi í Vestmannaeyjum. Hann gaf mömmu svona bekk í fermingargjöf 1958 og hefur hann verið til hliðsjónar í ferlinu. Þessi bekkur kemur í eik og blönduðum við í september,“ segir útvarpsmaðurinn vinsæli, Jón Axel Ólafsson um nýjasta framtak sitt.
Jón Axel á ættir að rekja til Vestmannaeyja. Amma hans var Elísa Guðlaug Jónsdóttir frá Berjanesi og móðir hans er Ruth Halla Sigurgeirsdóttir, dóttir Sigga Vídó. Jón Axel fetar með smíðinni í fótspor langafa síns, Jóns Einarssonar frá Berjanesi. „Það er samt merkilegra að hann gerði líka fullt af kistlum sem eru til á heimilum í Eyjum. Hann fékk síðan mann sem ég man ekki hvað hét til að mála þá. Það eru nokkrir á safninu í Sagnheimum. Bekkina smíðaði langafi úr afgangstimbri. Rimlarnir voru kúptir og til þess var notaður handhefill. Þetta er skemmtilegt verkefni sem verður frumsýnt fljótlega,“ sagði Jón Axel.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst