Betur fór en á horfðist þegar eldur kom upp í kjallara einbýlishúss við Höfðaveg. Svartan reyk lagði frá glugga í kjallaranum þegar athugulir vegfarendur veittu því athygli og hringdu á Neyðarlínuna. Tilkynning til slökkviliðsins barst klukkan 10.31 og örskömmu síðar voru slökkviliðsmenn komnir á staðinn. Þá höfðu vegfarendur hins vegar komist inn í húsið og borið út pott sem logaði á eldahellu. Lögreglumenn slökktu svo í pottinum utandyra.