Biðlistar hafa myndast á leikskólum Vestmannaeyjabæjar og að sögn Jóns Péturssonar, framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, er unnið markvisst að því að mæta eftirspurn. Inntaka leikskólabarna fer fyrst og fremst fram á haustin, og aftur í upphafi árs, og tókst bænum í september að taka inn öll börn sem voru orðin 12 mánaða þá, í samræmi við markmið sveitarfélagsins.
„Við náum hugsanlega að teka inn fimm börn af biðlista í upphafi árs,“ segir Jón. Hann bendir þó á að eðlilegt sé að biðlisti myndist þegar líður á skólaárið, bæði vegna þess að börnin eldast og vegna þess að nokkuð sé um flutninga fjölskyldna til Eyja með börn sem eru eldri en 12 mánaða.
Foreldrar sem eiga börn á biðlista og uppfylla skilyrði fá boðið að þiggja heimgreiðslur á meðan beðið er eftir plássi. Jón undirstrikar jafnframt að Vestmannaeyjabær hafi unnið markvisst að fjölgun leikskólarýma síðustu ár. „Á sex árum höfum við aukið leikskólarými um 30% til að mæta aukinni eftirspurn,“ segir hann og bætir við að jákvæð íbúafjölgun kalli á áframhaldandi uppbyggingu. „Ljóst er að til að halda í við þróunina þurfum við að bæta við fleiri rýmum.“




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst