Útganga Breta úr Evrópusambandinu um áramót hefur haft mikil áhrif á strandríkjafundum haustsins um stjórnun veiða úr deilistofnum, en þar hafa Bretar tekið sæti sem sjálfstætt strandríki. Niðurstaða náðist ekki á fundi um makríl og verður fundað á ný ekki síðar en 25. nóvember. Varðandi norsk-íslenska síld var ákveðið að setjast niður í janúar til að ræða stöðu Evrópusambandsins og hvort skilgreina eigi sambandið sem strandríki eða veiðiríki í síld. Ekkert heildarsamkomulag hefur verið í gildi síðustu ár um veiðar á deilistofnum í Norðaustur-Atlantshafi.
„Á fundinum um norsk-íslenska síld fór nokkur umræða fram um strandríkisstöðu einstakra aðila en eftir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er ljóst að Evrópusambandið, sem fékk viðurkenndan strandríkishlut í samningum strandríkjanna frá 1996 og síðan aftur árið 2007, telst ekki lengur vera strandríki. Þetta mál var ekki útkljáð á fundinum en Noregur, sem boðandi þessa fundar, mun kalla til sérstaks aukafundar í janúar þar sem þetta mál verður útkljáð,“ sagði í frétt á heimasíðu sjávarútvegsráðuneytisins í lok október.
Veiði umfram ráðgjöf
Kristján Freyr Helgason, formaður íslensku sendinefndarinnar í viðræðum um deilistofna, segir að til að teljast strandríki þurfi fiskurinn, ungur eða gamall, að vera á einhverjum tímapunkti í lögsögu þess. Hann segir að hlutdeild ESB í veiðum á norsk-íslenskri síld hafi verið 6,51% samkvæmt samningi frá 2007, en síldin hafi lítið sem ekkert veiðst í lögsögu ESB síðustu ár. Á sama tíma geri bæði Færeyingar og Norðmenn kröfu um aukinn hlut.
Frá árinu 2015 hafa stofnar kolmunna og norsk-íslenskrar síldar verið veiddir án heildarsamkomulags um skiptingu og hefur árleg veiði því verið um 20-30% umfram ráðgjöf, segir í frétt ráðuneytisins. Líkt og fyrri ár skiluðu fundirnir í ár engum árangri öðrum en þeim að aðilar samþykktu að við setningu einhliða kvóta skuli miða við heildarafla í samræmi við gildandi aflareglur og ráðgjöf ICES.
Aukin óvissa í makríl við útgöngu Breta
Samkomulag Evrópusambandsins, Noregs og Færeyja frá árinu 2014 um stjórnun makrílveiða rennur út í árslok og tók Bretland nú þátt í makrílviðræðum í fyrsta sinn sem sjálfstætt strandríki. Norðmenn hafa í ár veitt 90% af makrílafla sínum í haust á bresku hafsvæði og 70-80% síðustu ár. Þeir vita ekki frekar en aðrir hvernig samningar verða á milli ESB og Bretlands við útgöngu Breta um áramót.
Í makrílnum er því mikil óvissa um þróun mála vegna Brexit og ekkert liggur fyrir um hvort þriggja ríkja samkomulagið verður framlengt eða hvort Bretar verða aðilar að því. Samkvæmt því samkomulagi skiptu ESB, Noregur og Færeyjar á milli sín 84,6% af ráðgjöf ICES, en skildu 15,6% eftir fyrir Ísland, Grænland og Rússland.
Fréttin birtist fyrst í Morgunblaðinu 7. nóvember.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst