Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja tók nýverið fyrir skipulagsbreytingar vegna minnisvarða á Eldfelli í tilefni af 50 ára gosloka-afmæli.
Lögð var fram tillaga á vinnslustigi að breyttu aðalskipulagi Vestmannaeyja 2015-2035 ásamt umhverfismati áætlunar, greinargerð og uppdrætti vegna nýrrar deiliskipulagstillögu og umhverfismat áætlana. Heildarstefna skipulagsáætlananna er sú sama en gögnin hafa þó tekið einhverjum breytingum vegna breytinga á hönnun listaverksins á útsýnisstað og vegna nýrrar landsskipulagsstefnu.
Ráðið samþykkti fyrir sitt leyti að kynna tillögu á vinnslustigi fyrir Eldfell og nærliggjandi svæði vegna uppbyggingar listaverks um eldgos á Heimaey. Hér fyrir neðan er úrdráttur úr fylgiskjölum sem unnin eru af Alta vegna deiliskipulags á svæðinu vegna framkvæmdanna.
Ólafur Elíasson lýsir verkinu svo:
„Verkið sameinar margar hugmyndir sem mér eru kærar: mikilvægi þess að gefa sér tíma til að staldra við og hugsa, finna fyrir tilvistinni hér og nú, véfengja eigin sjónarhorn, hugleiða um afstæði tilverunnar og forvitni um sjónarhorn og upplifanir annarra, ennfremur að velta fyrir sér hreyfingu líkamans og hlutverki hans í því að standa andspænis veröldinni og að móta hana.”
Myndin hér að ofan sýnir núverandi stíga og vegi (hvítar línur) og nýjan stíg um Eldfell (rauð lína) sem er hluti af listaverki Ólafs Elíassonar. Stígurinn verður 1,5-2,5 metra breiður. Gert er ráð fyrir að bæta megi við litlum áningarstöðum eða útsýnispöllum við hringstíginn þar sem gestir geta kastað mæðinni og þar sem ágangur er mikill og verja þarf yfirborð.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst