Dagbjört Guðbrandsdóttir er 35 ára sérnámslæknir í bráðalækningum, fædd og uppalin á höfuðborgarsvæðinu, en býr í dag í Vestmannaeyjum ásamt eiginmanni sínum, Victori Guðmundssyni lækni og tónlistarmanni, ásamt þremur sonum þeirra, Frosta, sem er þriggja ára, og tvíburunum Mána og Stormi sem eru eins og hálfs árs. Fjölskyldan flutti til Eyja á síðasta ári og hefur fundið sig einstaklega vel í samfélaginu. Dagbjört veitti Eyjafréttum viðtal.
Aðspurð hvað hafi orðið til þess að þau hafi ákveðið að flytja til Eyja með fjölskylduna segir Dagbjört að þau Victor hafi verið að vinna hér yfir Þjóðhátíð fyrir nokkrum árum, hann að spila og hún að lækna og þau hafi fundið hversu lífið var ljúft hér. Í fyrstu hafi þau einungis byrjað að framlengja ferðir sínar hingað áður en þau tóku ákvörðun um að setjast hér að með fjölskylduna.
,,í fyrra ákváðum við að taka jólin og áramótin í Eyjum og þá fundum við raunverulega muninn á að vera hér með alla strákana. Einfalt líf og stutt að fara allt sem hentar mjög vel fyrir jafnvægi í fjölskyldu og vinnulífi. Okkur bauðst svo tækifæri að flytja til Vestmannaeyja og hjálpa til á heilsugæslunni hér og við vorum ekki lengi að ákveða okkur eftir fyrri reynslu af því að búa hér. ![]()
Samheldið samfélag
Við fjölskyldan höfum fengið vægast sagt frábærar móttökur, en strákarnir okkar komust strax inn á frábæra leikskólann Kirkjugerði og líður mjög vel þar, en svo hefur Eyjafólk stokkið til og aðstoðað okkur með allt sem við höfum þurft hjálp með. Við brennum líka bæði fyrir að gefa til baka til samfélagsins, en fyrir utan að hjálpa til á heilsugæslunni þá er Victor einmitt að fara af stað með heildræna heilsuþjónustu og sinnir einnig skemmtanalífinu í Eyjum og tónlistinni sinni sem er mjög gaman.”
![]()
Það sem hefur komið fjölskyldunni mest á óvart við að búa í Eyjum sé hvað Eyjafólk og samfélagið í heild er samheldið og mikið um að vera. ,,Það er líka mjög róandi að sjá alltaf fjöllin og sjóinn daglega hvert sem maður lítur og maður sparar auðvitað mikinn tíma á hér. Það eru vægast sagt mikil lífsgæði að búa í Vestmannaeyjum!,” bætir hún við.
Aðspurð hverjir séu helstu kostir og gallar að vera læknir í litlu samfélagi eins og í Eyjum segir Dagbjört kostinn klárlega vera hvað hópurinn sem starfar á heilsugæslunni og spítalanum er samheldinn. „Einnig er gaman hvað starfið er fjölbreytt, en sem læknir úti á landi þarf maður að geta gert allt mögulegt. Aftur á móti er það líka galli ef það koma alvarleg og flókin tilfelli sem þarf að senda í bæinn. Þá þurfa samgöngumál að virka upp á að skjólstæðingar komist á sem skemmstum tíma á réttan stað.“
Hefur flutningurinn á einhvern hátt breytt sýn ykkar á starfið eða lífið? ,,Klárlega, en eftir að ég byrjaði að starfa sem læknir hér sá ég hvað það er gaman að þurfa sinna fjölbreyttum málum og hugsa í lausnum. Einnig hafa flutningarnir einfaldað lífið okkar mikið þar sem við löbbum nánast allt og spörum okkur mikinn tíma á að búa hér með þessar stuttu vegalengdir. Strákarnir okkar hafa líka komist vel inn í Eyjalífið og það er frábært hvað er mikið um að vera í Eyjum. Við erum alltaf að finna eða heyra af nýjum hefðum sem Eyjamenn eru með og það er magnað að fylgjast með því og taka þátt.”
Dagbjört segir veturinn lofa góðu hjá fjölskyldunni. ,,Fram undan er frábær vetur ásamt jólum og áramótum hér í Eyjum með fjölskyldunni. Ég verð að vinna á heilsugæslunni og Victor mun áfram sinna sínu, en við erum mjög spennt fyrir komandi tímum og elskum að búa hér.
Eins og staðan er í dag hjá þeim í dag er planið að vera í Eyjum frá Þjóðhátíð ‘25 yfir Þjóðhátíð ‘26, en bætir við að það sé aldrei að vita nema að það lengist miðað við hvað þeim líði vel hér.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst