Goslokahátíðin verður haldin að vanda næstkomandi helgi, eða fyrstu helgina í júlí. Goslokadagskrá hafði þegar legið fyrir áður stjórnvöld riftu öllum fyrri samkomutakmörkunum og höftum. Í upprunalegri dagskrá hafði ekki verið gert ráð fyrir skemmtun fullorðinna á Skipasandi á laugardagskvöldinu, 3. júlí, líkt og hefð hefur myndast fyrir. Eftir áberandi ábendingar og umræður íbúa, og hugsanlegra gesta helgarinnar, á vefmiðlum hefur dagskránni verið breytt. Þetta var kynnt á vef Vestmannaeyjabæjar í gær. Fjölskyldudagskrá laugardagsins sem áður hafði verið auglýst klukkan 20:30 á Stakkagerðistúni mun þess í stað hefjast klukkan 22.00 á Skipasandi. Einnig mun eyjahljómsveitin Brimnes spila fyrir balli síðar sama kvöld með fyrirvara um tilskilin leyfi.
Í tilkynningunni segir:
“Sönghópurinn Tónafljóð færist af kvöldskemmtuninni yfir á Landsbankadaginn í Bárugötu. Goslokanefnd þakkar öllum þeim sem gerðu þessa breytingu að veruleika fyrir sinn þátt en þetta eru: Vinnslustöðin, Miðstöðin, Bergur Huginn, Lundinn, Skipalyftan, Leturstofan/Tígull, auk Vestmannaeyjabæjar. Auk þess vill nefndin koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem koma að umgjörð hátíðarinnar og leyfisveitingum fyrir jákvæð og skjót viðbrögð. Án þeirra hefði ekki verið hægt að flytja kvöldskemmtunina og auka veg hennar.”
Breytta dagskrá Gosloka má kynna sér á vef Vestmannaeyjabæjar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst