Ein athugasemd barst
3. maí, 2024
ithrotta-6.jpg
Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja. Eyjar.net/Tryggvi Már

Breytt deiliskipulag við Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja var tekið fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs nú í vikunni.

Á fundinum var lögð fram til samþykkis – að lokinni auglýsingu – tillaga að breyttu deiliskipulagi Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja þar sem gert er ráð fyrir nýjum byggingarreit fyrir búningsklefa norðan við íþróttasal. Ein athugasemd barst vegna málsins frá Haraldi Pálssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra ÍBV.

Telur framkvæmdina skammsýna og óábátasama

Í athugasemd Haraldar – sem ber yfirskriftina “Einn inngangur, eitt félag” segir m.a. að hans mati sé sú hugmyndafræði í uppbyggingu íþróttamannvirkja, sem
deiliskipulagsbreytingin byggir á, skammsýn og óábátasöm framkvæmd.

„Í samhengi uppbyggingar íþróttasvæða langar mig að benda á að ÍBV íþróttafélag dregur mikla fjármuni til samfélagsins í Vestmannaeyjum. Gera má ráð fyrir að Þjóðhátíð og íþróttamótin sem félagið stendur að skili u.þ.b. 800 milljónum á ári til samfélagsins.
Það er ágætt að hafa það hugfast þegar hugsað er um kostnað í þessum efnum. Á mótum íþróttafélagsins sem haldin eru í Vestmannaeyjum þá er Hásteinsvöllurinn miðja og hjarta svæðisins. Tel ég skynsamlegast að byggja upp miðju íþróttasvæða sveitarfélagsins þar með tilliti til starfsemi og framtíðarsýn fyrir ÍBV íþróttafélag.
Ávinningur af nýrri handboltahöll, búningsklefum, skrifstofum, líkamsrækt og
veislusal við Hásteinsvöll:
– Samnýting á umgjörð fyrir stuðningsmenn.
– Samnýting á umgjörð fyrir leikmenn.
– Samnýting á fundarherbergjum fyrir leikmannafundi, stjórnir og ráð.
– Samnýting á öðrum innviðum.
– Meiri samgangur milli þjálfara og iðkenda beggja greina.
– Bætt umgjörð fyrir fótboltamótin.
– Bætt umgjörð fyrir handbolta og fótbolta.
– Aukið aðgengi fyrir aðrar íþróttagreinar í Íþróttamiðstöðinni. T.d. fimleikana.
– Klefar fyrir iðkendur í bæði handbolta og fótbolta.
– Aukin umgjörð í kringum yngriflokka, eykur möguleika á betra félagsstarfi utan íþróttagreinanna.
– Bætt aðgengismál fyrir stuðningsmenn beggja greina.
– Saga félagsins varðveitt í nýju félagsheimili og blasir við bæjarbúum og gestum.
Nokkuð hefur verið rætt um uppbyggingu fyrir fimleikana, flutningur handboltans úr Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja myndi leysa það. Tímataflan hefur verið þétt setin í íþróttamiðstöðinni og eru börn að æfa langt fram eftir kvöldi. Við sáum einnig í úrslitakeppninni að þörf er á að geta veitt fleiri áhorfendum aðgang að leikjunum og betri umgjörð. Líklegt er að enn fleiri áhorfendur muni koma á úrslitakeppnina í framtíðinni með bættum samgöngum t.d. jarðgöngum.
Síðastliðin tvö ár hefur meistaraflokkur karla í handbolta keppt til úrslita í úrslitakeppninni, fyrst gegn Val árið 2022 og síðan gegn Haukum árið 2023, þar sem félagið hampaði titlinum stóra. Svo hægt væri að veita sambærilega umgjörð og þekkist hjá öðrum félögum í landinu, var undirbúningur í kringum leiki með þeim hætti að tugur sjálfboðaliða gáfu hver fyrir sig tugklukkustunda vinnu fyrir hvern leik.
ÍBV íþróttafélag hefur bent bænum á að skynsamlegt væri að fara í þarfagreiningu á því mannvirki sem nú er auglýst og þá á íþróttasvæðum Vestmannaeyja í heild sinni. Félagið lagði í smá forvinnu með sama aðila og hefur unnið slíkar skýrslur fyrir Kópavogsbæ. ÍBV óskaði eftir því að sveitarfélagið kæmi í slíka vinnu.
Það væri mjög heillavænlegt að fara fyrst í áðurnefnda þarfagreiningu frá óháðum aðila, til að meta hvernig við eigum að byggja upp fyrir framtíðina.
Að mínu mati er það skammsýn hugsun að byggja nýja klefa og aðra aðstöðu við Íþróttamiðstöðina fyrir tæpan milljarð. Þar sem önnur leið getur veitt samfélaginu mikið meiri ábata, leyst öll sömu vandamálin og gott betur. Aðrar lausnir og framtíðarsýn mætti einnig byggja upp í áföngum.
Anddyri íþróttafélagsins
Sambærilega umgjörð og hér um ræðir má finna hjá fjölmörgum félögum í dag t.d. Val, Fram, ÍR, FH, KR, HK og Haukum og fljótlega einnig hjá: Fjölni, Stjörnunni, KA og ÍA. Bærinn tók þá skynsamlegu ákvörðun á sínum tíma, að byggja búningsklefa fótboltans undir stúkunni en ekki inní Týsheimilinu eins og til stóð. Sú ákvörðun opnaði svo sannarlega á áframhaldandi uppbyggingarmöguleika fyrir svæðið.
Hvet ég því bæjarfulltrúa sveitafélagsins, með aðstoð embættismanna, til að skoða þessi mál gaumgæfilega.

segir í bréfi Haraldar Pálssonar til bæjaryfirvalda.

Ráðið samþykkti fyrir sitt leyti tillögu að breyttu deiliskipulagi við íþróttamiðstöð Vestmannaeyja skv. skipulagslögum. Ráðið þakkar bréfritara en telur efnisatriði athugasemdarinnar ekki hafa áhrif á þá skipulagsbreytingu sem liggur fyrir við Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja. Var erindinu vísað til bæjarstjórnar.

https://eyjar.net/660-milljonir-aaetladar-i-vidbyggingu/

https://eyjar.net/haleitar-hugmyndir-hja-ibv/

Tengdar fréttir

Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst