„Mér finnst það mjög líklegt að makrílvertíðum sé lokið í Eyjum,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar um samning Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra um makrílveiðar við Bretland, Noreg og Færeyjar um skiptingu hlutdeildar í makríl. Stefán Friðriksson, forstjóri Ísfélagsins tekur í sama streng. „Miðað við hlut Íslands árið 2026 eins og hann lítur út, bæði fyrir og eftir þennan kostulega samning, þá mun Ísfélagið ekki frysta makríl í Vestmannaeyjum.“
Samkomulagið gildir til ársloka 2028 og fer hlutur Íslands úr 16,5% í 10,5% sem er þriðjungslækkun. Færeyjar fá 13,35%, Noregur 28,24% og Bretland 25,36%. Enn á eftir að semja við Evrópusambandið og Grænland.
Margir hafa mótmælt samkomulaginu og telja hlut Íslands heldur rýran. Samkvæmt samkomulaginu fær Ísland aðgang til að veiða 60% aflamarks innan norskrar lögsögu og 30% innan færeyskrar lögsögu. Helst er það hið illskiljanlega ákvæði, að íslenskum skipum er skylt að bjóða 2/3 hluta aflans upp í gegnum Norska síldarsölusamlagið sem stendur í mönnum.
Þetta ákvæði og rýr hlutur Íslands í aflamarki makríls verður sennilega til þess að vinnsla á makríl í Vestmannaeyjum heyri sögunni til. Ísfélag og Vinnslustöðin eru með liðlega fjórðung aflamarks Íslands í makríl.
Þetta er önnur sleggjan sem skellur á Vestmannaeyjum í boði núverandi ríkisstjórnar. Fyrra höggið var hækkun veiðigjalda og nú stefnir hún að því að rústa makrílvinnslu í Eyjum sem staðið hefur með blóma í 15 ár.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst