Í águst var auglýst eftir framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. Capacent heldur utan um ráðningarferlið og er nú verið að meta umsóknirnar. Lúðvík Bergvinsson stjórnarformaður félagsins sagði í samtali við Eyjafréttir að vonast væri eftir því að niðurstaða mundi liggja fyrir á næstu dögum „við vonumst til þess að innan 10 daga liggi fyrir niðurstaða þess ferils þannig að stjórnin geti tekið endanlega ákvörðun.“
Aðspurður um stöðuna á afhendingu skipsins sagði hann að 15. nóvember hefði ekki verið formlega staðfest. „Síðasta opinbera dagsetning sem gefin hefur verið út um afhendingu skipsins í skipasmíðastöðinni er 15. nóvember. Sú dagsetning hefur þó ekki verið formlega staðfest, en þeirri dagsetningu hefur heldur ekki verið breytt með opinberri tilkynningu þar um. Á þessari stundu er þó ekkert hægt að fullyrða um að hún standist,“ sagði Lúðvík.
Nú er aðeins einn vélstjóri á smíðastað skipsins og sagði Lúðvík að skipstjóri væri á leiðinni út á næstu dögum, „við erum í góðu samstarfi við Vegagerðina um það hvenær starfsmenn fara á smíðastað.“