„Ég get ekki sagt það. Ályktun frá Landsfundi VG um stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn og óvarlegar yfirlýsingar nýkjörins formanns VG um samstarfið voru vendipunktur. Þegar stjórnarsamstarfið var endurnýjað eftir brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur var sameinast um mikilvæg mál eins og efnahagsmál, orkumál og útlendingamál. Það kom síðan í ljós að VG ætlaði sér ekki að standa við þetta samkomulag,“ segir Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi þegar hann var spurður hvort tíðindin á sunnudag hafi komið á óvart.
„Þegar sú staða var komin upp var ekki til neins að halda samstarfinu áfram. Það var heldur ekki rétt gagnvart þjóðinni. Í grunninn var þetta þannig að VG, með nýjum formanni, voru ekki tilbúnir að standa við samkomulag um verkefni ríkisstjórnarinnar sem þeir höfðu samþykkt nokkrum mánuðum áður. Þessu samstarfi var því sjálfhætt og ég tel að formaður flokksins hafi tekið rétta ákvörðun með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi,“ segir Birgir.
Hluti úr viðtali sem birtist í Víkurfréttum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst