Í síðustu viku greindu Eyjafréttir frá því að HS Orka og Landsvirkjun hafi gert samning til næstu fjögurra ára. Samningurinn tryggir örugga orku á sanngjörnu verði til að reksturs varmadælustöðvar og rafskautaketils í Vestmannaeyjum. Í kjölfar tíðindana sendu Eyjafréttir fyrirspurn til HS Veitna um hvað megi búast við mikilli verðlækkun fyrir notendur í Eyjum.
Í svari Sigrúnar Ingu Ævarsdóttur, samskipta og markaðsstjóra HS Veitna segir að undanfarin misseri hafi HS Veitur verið að takast á við langvarandi taprekstur hitaveitunnar í Vestmannaeyjum með ýmis konar aðgerðum. Umræddur samningur er liður í þeirri vegferð að koma í veg fyrir frekari taprekstur og tryggja áframhaldandi rekstrargrundvöll hitaveitunnar.
„Raforkukaupasamningurinn sem um ræðir felur í sér kaup á skerðanlegri forgangsorku í stað ótryggrar orku, þar sem ótrygg orka á lágu verði er ekki í boði lengur. Raforkuverð samningsins fyrir rafskautaketilinn er nær tvöfalt hærra en áður og gefur því ekki tilefni til verðlækkunar á heitu vatni enda stefnir í taprekstur hitaveitunnar í Vestmannaeyjum á þessu ári þrátt fyrir hann. Samningurinn tryggir þó varmaverinu fyrirsjáanleika í raforkuverði næstu 4 ár en verðin eru tengd neysluvísitölu og munu taka hækkunum árlega samkvæmt því.
Raforkusamningurinn er þó hagfelldur að því leyti að raforkuverð á markaði hefur undanfarin misseri hækkað langt umfram vísitölu og dregur tilkoma samningsins úr þeirri viðbótar hækkunarþörf sem hefði þurft til að mæta því. Ennfremur má reikna með að olíukeyrsla með tilheyrandi útgjöldum verði hverfandi frá því sem annars hefði orðið þar sem verulega er þrengt að svigrúmi til skerðinga,“ segir að endingu í svari HS Veitna.
Þessu tengt:
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst