Stiklað verður á stóru og brugðið upp myndum á sýningartjaldi af atburðum tengdum gosinu í bíósalnum í Kviku við Heiðarveg laugardaginn 8. júlí kl. 12:00-13:30 í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá upphafi og lokum eldgossins á Heimaey 1973. Sumir atburðina hafa ekki hlotið mikla umfjöllun.
Fjallað verður um eldgosið, björgunarstarfið, tjónin sem urðu og umhverfið sem gjörbreyttist. Þá verða til sýnis ljósmyndir af húsum við Helgafellsbraut og austar, sem grafin voru upp 1974 og síðan metin og framtíð þeirra ákveðin.
Páll Zóphaníasson og Hallgrímur Tryggvason verða báðir með stutt innlegg. Páll var í forystu í Eyjum á gostímanum og bæjarstjóri 1976 til 1982. Hallgrímur, vélvirki, vann við uppsetningu mjög öflugs dælubúnaðar á Básaskersbryggju og við sjódælingu á hraunkantinn.
Vestmannaeyjar í gegnum aldirnar verða sýndar. Ein mynd er valin fyrir hvert ár með megináherslu frá upphafi vélbátaaldar 1906. Eyjatónlist verður undir.
Áætlaður heildartími dagskrár er ein og hálf klukkustund. Arnar Sigurmundsson hefur umsjón yfir sýningunni, Viktor P. Jónsson sér um uppsetningu mynda og sýningarstjóri er Snorri Rúnarsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst