Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson átti frábæran leik þegar íslenska landsliðið tryggði sér sæti í undanúrslitum á EM í handbolta með 39-31 sigri á Slóveníu í dag. Þetta var lokaleikur Íslands í milliriðli tvö sem fram fór í Malmö í Svíþjóð.
Elliði Snær átti stórleik og skoraði átta mörk í níu skotum og var í leikslok valinn maður leiksins.
Andstæðingur Íslands í undanúrslitum er enn óljós en ljóst er að Ísland mun spila um verðlaun á Evrópumótinu. Ísland endar í öðru sæti í milliriðli tvö með sjö stig en Króatar eru efstir með átta stig eftir sigur á Ungverjum. Ísland mætir því annað hvort Danmörku eða Þýskalandi úr milliriðli eitt en það kemur í ljós í kvöld eftir leik Danmerkur og Noregs.
Undanúrslitaleikirnir fara fram föstudaginn 30. janúar kl. 16:45 og 19:30, í Herning í Danmörku.