Íslenska landsliðið vann stórsigur gegn Póllandi í öðrum leik sínum á Evrópumóti karla í handbolta sem fór fram í Kristianstad í Svíþjóð í dag. Íslenska liðið byrjaði leikinn frekar hægt og var jafnræði með liðunum framan af. Þegar um það bil fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik komst Ísland þremur mörkum yfir, 11:8. Staðan í hálfleik 13:10.
Íslenska liðið sýndi yfirburði sína í síðari hálfleik og áttu Pólverjar fá svör við leik Íslands. Þegar stundarfjórðungur var til leiksloka var Ísland komið með tíu marka forystu, 24:14. Ísland hélt sama dampi út leikinn og vann að lokum átta marka sigur. Lokatölur leiksins 31:23.
Eyjamaðurinn Elliði Snær Viðarsson átti mjög góðan leik í liði Íslands og skoraði fimm mörk. Ísland leikur í F-riðli og sigraði Ítalíu í fyrsta leik sínum á mótinu með þrettán marka mun, 39:26. Ísland leikur lokaleik sinn í riðlinum gegn Ungverjalandi, þriðjudaginn 20. janúar kl. 19:30.
Mörk Íslands: Orri Freyr Þorkelsson 6 mörk, Ómar Ingi Magnússon 5, Elliði Snær Viðarsson 5, Haukur Þrastarson 5, Viggó Kristjánsson 3, Elvar Örn Jónsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Arnar Freyr Arnarsson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1, Janus Daði Smárason 1.