ÍBV steinlá gegn Sarpsborg08 á Hásteinsvelli í kvöld í fyrri leik liðanna í undankeppni Evrópudeildarinnar. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þrátt fyrir að Norðmennirnir hafi verið meira með boltann. Áttu Eyjamenn nokkur ágætis færi og voru óheppnir að skora ekki.
Í síðari hálfleik snerist leikurinn algerlega gestunum í hag og skoraði Rashad Muhammed fyrsta mark Sarpsborg í evrópuleik á 59. mínutu. Gunnar Heiðar Þorvaldsson var svo nálægt því að jafna fjórum mínútum síðar þegar hann átti skot í samskeytin eftir hægan darraðadans í markteig gestana. Í staðin brunuðu gestirnir upp völlin og Patrick Mortensen við öðru marki Sarpsborg. Eftir þetta fundu Eyjamenn aldrei taktinn að nýju og höfðu gestirnir öll tögl og höld á leiknum það sem eftir lifði. Ole Jorgen Halvorsen og Armin Askar gerðu svo algerlega út um Evrópudraum Eyjamenn með sítt hvoru markinu í uppbótatíma.
Það verður því að teljast ansi ólíklegt að ÍBV fái nokkuð út úr þessari rimmu. En til þess þurfa þeir að skora fimm mörk úti í Noregi nk. fimmtudag, 19. júlí.
„Það er gríðarlegt svekkelsi að hafa kastað þessu svona frá okkur í lokin og fá á okkur þessi síðustu tvö mörk eins og kjánar,” sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari í samtali við Mbl.is að loknum leik. „Ef við horfum á leikinn í heild þá vorum við fínir í fyrri hálfleik og sköpuðum okkur mjög góð færi og þetta kennir okkur það að við verðum að nýta okkur svona færi í svona leik. Það er ekki hægt að fara með hálfkák í færin í svona leik það bara gengur ekki.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst