Mikil vinna liggur að baki hverrar þjóðhátíðar, vinna sjálfboðaliða sem á lokasprettinum leggja nótt við dag til að allt verði klárt þegar gestir mæta. Það eru líka margir að störfum á hátíðinni sjálfri, sjálfboðaliðar, fólk í löggæslu, eftirliti og viðbragðsaðilar í heilbrigðisþjónustu. Ekki má heldur gleyma skemmtikröftum sem vita fátt skemmtilegra en að koma fram í Herjólfsdal og skemmta okkur. Síðast en ekki síst á fólkið sem hreinsar Dalinn á hverjum morgni mikinn heiður skilinn.
Og allir fá sinn skammt á dagskránni, börnin, unga fólkið og þeir sem eldri eru og allir sameinast í Brekkunni á kvöldin. Eyjafólk er flestum betra í að skemmta sér og öðrum og vilja skapa sjálfum sér og gestum sem bestar minningar frá hátíðinni, svo vitnað sé í orð Írisar bæjarstjóra á Rás 2 rétt í þessu.
Ég gagnrýndi RÚV á föstudagskvöldið þegar enga frétt var að finna í kvöldfréttatíma frá Þjóðhátíð en úr því var bætt í gærkvöldi með ágætri samantekt. Annar stjórnanda eftirmiðdagsþáttar Rásar tvö er í Eyjum og er dugleg að segja frá því sem fyrir augu ber og taka viðtöl.
Það ber að virða en eins sakna ég, brennan á Fjósakletti á föstudagskvöldið sást ekki í fréttinni á RÚV. Kannski sjáum við flugeldasýninguna frá í gærkvöldi í fréttunum kvöld og Brekkusönginn á morgun. Allt hápunktar sem enginn leikur eftir.
En þeir eru margir sem skrásetja hátíðina í máli og myndum og hafa glatt mig og konuna sem hefur náð gleði sinni á ný eftir dapurt föstudagskvöld. Einn skrásetjaranna er Addi í London sem á þessari myndir.
Bendi svo á streymið frá skemmtun og Brekkusöng frá Herjólfsdal í kvöld. Þess ætlum við að njóta í útlegðinni í Garðabæ.
Með von um gott og farsælt kvöld og nótt.
Ómar Garðarsson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst