Eyjafólkið - Vestmannaeyjameistarar í golfi
Sóley með verðlaunagripina.

Fyrr í mánuðinum fór fram Meistaramót Golfklúbbs Vestmannaeyja. Mótið fór fram dagana 10. til 13. júlí og er þetta í 85. skiptið sem að það er haldið. Fjölmargir efnilegir kylfingar tóku þátt en þátttakendur sem luku keppni voru 90 talsins og spiluðu í samtals 11 flokkum. Vestmannaeyjameistarar 2024 í karla- og kvennaflokki í golfi eru þau Kristófer Tjörvi Einarsson og Sóley Óskarsdóttir. Kristófer lauk leik á mótsmeti og lék samtals á 9 undir pari. Þessir ungu og efnilegu kylfingar eiga framtíðina fyrir sér í íþróttinni og eru Kristófer og Sóley Eyjamennirnir að þessu sinni.

Kristófer Tjörvi hafði ástæðu til að fagna í mótslok.

Kristófer Tjörvi

Fullt nafn: Kristófer Tjörvi Einarsson

Fæðingardagur: 30. janúar 2001

Fæðingarstaður: Reykjavík

Fjölskylda: Foreldrar mínir eru Sara Jóhannsdóttir og Einar Gunnarsson. Síðan á ég þrjú systkini, Amelíu Dís, Aron Gunnar og Jóhann Darra. Kærastan mín heitir Hólmfríður Arna.

Mottó: Mikilvægasta trúin er trúin á sjálfan sig.

Síðasta hámhorfið: Baby reindeer

Uppáhalds hlaðvarp: Dr. Football

Uppáhalds kvikmynd: Shawshank redemption

Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Lionel Messi og Barcelona

Uppáhalds golfvöllur: Urriðavöllur hérlendis og La Galiana erlendis

Aðaláhugamál: Íþróttir

Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Svefn

Hvaða tónlist kemur þér í gott skap? Ég hlusta á Júníus Meyvant og Zach Bryan til þess að koma mér í gott skap.

Hvað er velgengni fyrir þér? Velgengni fyrir mér að að bæta sig frá degi til dags. Það þarf ekki að skipta máli hversu mikil bætingin er. Bætingin getur verið margskonar, hugarfarið, spilamennskan eða að vera betri manneskja en maður var í gær.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Ég sé fyrir mér að vera í góðri vinnu hvort sem það er hérlendis eða erlendis með fjölskyldunni minni.

Hverju þakkar þú þennan góða árangur á golfvellinum? Þolinmæði, þrautseigju og að hafa gaman að því að vera í góðum félagsskap á vellinum.

Hvernig kviknaði áhugi þinn á golfi? Golf hefur fylgt mér alla mína ævi. Ég kem úr mikilli golffjölskyldu þannig að ég held að ég hafi alltaf haft áhuga á golfi.

Hvert stefnir þú í íþróttinni? Ég stefni á að vera fyrirmynd fyrir aðra í íþróttinni. Mig langar að halda áfram að ná árangri og hafa gaman af því að spila.

Hvað er framundan hjá þér í sumar? Framundan er Íslandsmót golfklúbba hér í Eyjum þar sem markmiðið er að koma okkur aftur upp í deild þeirra bestu.

Eitthvað að lokum: Mig langar að hrósa golfklúbbnum og styrktaraðilum fyrir frábært starf. Þeirra framlag er gríðarlega mikilvægt.

 

Sóley Óskarsdóttir

Fullt nafn: Sóley Óskarsdóttir

Fæðingardagur: 3. september 2009

Fæðingarstaður: Landspítalinn í Reykjavík

Fjölskylda: Mamma Kolbrún Sól Ingólfsdóttir, pabbi Óskar Haraldsson og litli bróðir Ari Óskarsson.

Mottó: Yolo

Síðasta hámhorfið: Grey’s anatomy.

Uppáhalds hlaðvarp: Hlusta eiginlega ekki á hlaðvörp.

Uppáhalds kvikmynd: Mamma mia og The Hangover

Uppáhalds íþróttamaður og íþróttafélag: Rory Mcllroy og ÍBV

Uppáhalds golfvöllur: Vestmannaeyjavöllur og Jaðarsvöllur

Aðaláhugamál: Golf

Eitthvað sem þú gerir á hverjum degi sem þú gætir ekki verið án: Drekka collab og fara í golf.

Hvaða tónlist kemur þér í gott skap? Gömul íslensk tónlist.

Hvað er velgengni fyrir þér? Að vinna eða ná markmiðum.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Vonandi ennþá í golfi.

Hverju þakkar þú þennan góða árangur á golfvellinum? Júlla, Kalla, Jóni Valgarð, Þorsteini, mömmu, pabba og peyjunum sem ég æfi með.

Hvernig kviknaði áhugi þinn á golfi? Bara að vera í golffjölskyldu og þegar ég horfði á fyrsta golfmótið mitt.

Hvert stefnir þú í íþróttinni? Háskólagolf.

Hvað er framundan hjá þér í sumar? Örugglega Íslandsmót unglinga og nokkur mót á unglingamótaröðinni.

Úr 13. tölublaði Eyjafrétta.

Nýjustu fréttir

Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Dagvistunarmál til umræðu á fundi fræðsluráðs
Veit Inga hvað hún syngur?
Norðurinngangur við sjúkrahúsið opinn á ný
Viðhorf til bæjarstjóra í brennidepli í nýrri könnun
Vinnustofur í stað líkamsræktar?
Glacier Guys með nýtt föstudagslag

Góð ráð fyrir siglingu

Sjóveiki

Hvað er sjóveiki?

Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.

Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.

Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.

Góð ráð til að hindra sjóveiki:

  • Góð hvíld daginn fyrir brottför. Að fara seint að sofa og snemma um borð í bát fer ekki vel saman ef fólk er hætt við sjóveiki.
  • Forðist áfenga drykki daginn fyrir brottför
  • Forðist djúpsteiktan, brasaðan eða saltan mat daginn fyrir siglingu.
  • Borðið góðan morgunverð. Borðið gjarnan hvítt brauð, hafragraut og ávexti þó ekki sítrus ávexti.
  • Forðist mikið koffein. Mikið kaffi er ekki það sem maganum líkar fyrir sjóferð.
  • Hafðu mat með þér á sjó. Gott er að hafa samlokur með kjúklingi eða kalkún. Kjötið er fitusnautt og brauðið er róandi í maga. Hafðu endilega eitthvað til að grípa í sem er létt í maga. Bananar eru mjög góðir til að narta í ef þú finnur fyrir ógleði en einnig er gott að hafa létt kex eða annað sem er ekki salt eða fitumikið.
  • Drekkið vel af vatni en einnig er gott er að drekka kóla drykki eða engiferöl í sjóferðinni

Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.

  • Koffínátín – fæst án lyfseðils
  • Postafen – fæst án lyfseðils
  • Scopolamin plástur – lyfseðilsskyltEinnig má fá armbönd gegn ferðaveiki sem sumir telja að hjálpi.

Önnur ráð:

  • Engifer er jurt sem nýlega hefur fengið aukna athygli vegna þess að því er haldið fram að hún geti slegið á ógleði sem fylgir sjóveiki. Til forna tuggðu kínverskir sjómenn engiferrót til að draga úr sjóveiki. Flest lyf sem virka á ógleði verka á heilann en engifer virkar aðeins á magann. Ráðlagt er að taka 1000 mg. hylki hálftíma fyrir brottför. Einnig má taka eitt eða tvö 500 mg. hylki sem eru til viðbótar á ferðalaginu. Ekki er ráðlagt að drekka coke með engifertöflum.
  • Piparminta og te eru einnig gömul húsráð við ferðaveiki.
  • Sumum finnst betra að taka sýrujafnandi töflur, Alminox eða slíkt áður en þú heldur á sjó og þá er gott að hafa box með út á sjó.

Hvar í skipinu er best að vera o.fl.

  • Minna finnst fyrir hreyfingu og veltingi ef maður er staddur næst miðju bátsins.
  • Mörgum finnst gott að vera í kulda, t.d.að vera úti á dekki og láta vindinn leika um sig.
  • Matarlykt fer illa í þá sem hætt er við sjóveiki og einnig pústið frá bátnum.

Þungun:

Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.