ÍBV og Vestri áttust við í 16. umferð Bestu deildar karla í dag. Leikið var á Ísafirði og máttu Eyjamenn þola tap. Leikurinn fór rólega af stað en Eyjamenn voru meira með boltann en náðu ekki að skapa sér mikið. Það voru Vestramenn sem komust yfir á 20. mínútu leiksins en þar var að verki Diego Montiel eftir frábært einstaklingsframtak. Vestramenn tvöfölduðu forystu sína á 43. mínútu þegar Ágúst Eðvald Hlynsson átti gott samspil með Diego Montiel inn á teig Eyjamanna og kláraði framhjá Marcel í marki ÍBV.
Eyjamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti en það fjaraði fljótt undan hjá þeim. Þeirra besta marktækifæri kom ekki fyrr en á 90. mínútu leiksins þegar Arnar Breki Gunnarsson átti skot sem markvörður Vestra varði meistaralega. Eftir leikinn er ÍBV áfram í níunda sæti með 18 stig á meðan Vestri er í fimmta sæti með 22 stig.
Næsti leikur ÍBV er sjálfur Þjóðhátíðarleikurinn sem fer fram á Hásteinsvelli laugardaginn 2. ágúst kl. 14:00.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst