Ísfisktogararnir í Síldarvinnslusamstæðunni hafa verið að veiðum austur af landinu að undanförnu. Rætt er við skipstjórana á fréttasíðu Síldarvinnslunnar í dag.
Fyrst var haft samband við Einar Ólaf Ágústsson á Jóhönnu Gísladóttur GK þegar skipið var að landa á Djúpavogi sl. sunnudag. „Við erum með fullfermi núna og það er mest þorskur og ýsa. Aflann fengum við Í Reyðarfjarðardýpi, Norðfjarðardýpi og úti á Fæti. Það var kaldi í upphafi túrs en síðan gott veður miðað við árstíma. Við erum nokkuð ánægðir með þennan túr og vonandi gengur þetta svona vel fram að hátíðum,” sagði Einar Ólafur.
Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu bæði á Eskifirði sl. fimmtudag að lokinni stuttri veiðiferð. Síðan var haldið á miðin og landað á ný í Neskaupstað á mánudaginn. Skipin voru kölluð inn til löndunar vegna veðurs, mannaskipta og eins vegna þess að fisk vantaði til vinnslu hjá Vísi í Grindavík. Heimasíðan ræddi fyrst við Egil Guðna Guðnason á Vestmannaey. „Á fimmtudaginn lönduðum við 25 tonnum eftir rétt rúman sólarhring á miðunum. Haldið var út á ný og fiskað á Gerpisflaki, í Norðfjarðardýpi, Seyðisfjarðardýpi og á Glettinganesflaki. Síðan var haldið til Neskaupstaðar og landað þar rúmlega 50 tonnum af þorski og ýsu. Meirihluti aflans var þorskur” sagði Egill Guðni.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey, hafði svipaða sögu að segja og Egill Guðni. „Eftir stuttan túr var landað á Eskifirði á fimmtudag og síðan haldið strax til veiða á ný. Þá var veitt á Gerpisflaki og Glettinganesflaki. Að loknum túrnum var tæplega 50 tonnum landað í Neskaupstað á mánudag. Aflinn var tæplega 50 tonn, mest ýsa. Að lokinni löndun þurfti að lagfæra togvíra en síðan var haldið beint til veiða á ný,” sagði Jón.
Gullver NS landaði í gær á Seyðisfirði. Hjálmar Ólafur Bjarnason sagði að áhöfnin væri sátt við túrinn. „Aflinn er um 100 tonn og er meirihluti hans þorskur. Veitt var í góðu veðri á Gerpisflaki og Tangaflaki. Gert er ráð fyrir að haldið verði til veiða á ný um hádegi á fimmtudag,” sagði Hjálmar Ólafur.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst