Óskar Elías Óskarsson er fæddur árið 1955 í Vestmannaeyjum. Eiginkona hans er Hildur Hrönn Zoega Stefánsdóttir og saman eiga þau Hreiðar Örn Zoega Óskarsson og Óskar Elías Zoega Óskarsson. Óskar Elías tók við rekstri Áhaldaleigunnar 1984 en fyrirtækið var upphaflega stofnað árið 1971.
Hjólbarðaþjónusta í 25 ár
Óskar Elías hefur rekið Áhaldaleiguna ehf. frá árinu 1984, þegar hann tók við af bróður sínum Ármanni Halldóri Óskarssyni heitnum. Áhaldaleigan hefur þó tekið hinum ýmsum breytingum síðan þá og verkefnin eftir því. Í fyrstu gekk reksturinn að mestu út á tækjaleigu, malarnám, kjarnaborun, sögun og ýmis stór og smá verkefni sem komu að breytingum og uppbyggingu á húsnæði. Á þeim tíma var Óskar með fleiri einstaklinga í vinnu hjá sér. „Ég ætlaði bara að prufa þetta í þrjú til fimm ár en ég er hér enn.“
Áhaldaleigan hefur verið í því formi eins og hún er í dag síðan 1998 þegar Óskar byrjaði með hjólbarðaþjónustu. „Tímarnir breytast og mig vantaði meira að gera, því ákvað ég að fara út í dekkin.“ Og að því sögðu fagnar Óskar því 25 ára hjólbarðaþjónustu í ár.
Þróunin í takt við samfélagið
Fyrirtækið hefur vaxið frá ári til árs. „Allt er orðið mikið þróaðara líkt og annað í samfélaginu. Tækin eru orðin fleiri og fullkomnari og dekkin miklu betri. Þegar ég byrjaði var algengast að dekkin væru 12-15 tommu en í dag er algengast að dekkin séu frá 17-24 tommu. Vinnan verður erfiðari fyrir vikið, þetta var miklu léttara þegar ég byrjaði.“ Áhugavert er að segja frá því að þegar Óskar tók bílprófið fyrir gos voru 500-600 ökutæki skráð í Vestmannaeyjum en í dag eru yfir 3.000 ökutæki skráð. „Það er bíll á næstum hverju einasta heimili og á mörgum hverjum fleiri en einn.“´
Í slíkri álagsvinnu segir Óskar sig heppinn að vera við góða heilsu og í frítíma er hann duglegur að stunda reglulega hreyfingu, svo sem badminton, sund og karlaleikfimi.
Nýlega var Áhaldaleigan máluð og nýtt járn sett á hluta af húsinu. Einnig hefur Óskar staðið í framkvæmdum inni, endurnýjun á tækjabúnaði og stærsti hluti gólfsins nýsteyptur.
Glæsileg breyting á húsnæðinu.
Dekkjavertíð
Dekkjavertíð er háannatími hjá Óskari og stendur hún yfir í um það bil tvo mánuði tvisvar á ári. „ Þá er ég mættur eldsnemma og vinn fram á kvöld, þetta er mikil törn.” Að öðru leyti er þetta heilsársvinna þar sem hann leigir út ýmis konar smátæki í iðnað, loftpressu og vinnupalla. Einnig er hann með hjólaviðgerðir og varahluti fyrir hjól, ásamt bíla hreinsivörum og fleira.
Gólfið ný steypt.
Aðspurður hvenær hann ætli að hætta segir hann: „Ég ætla að reyna að halda upp á 30 ára starfsafmæli hjólbarðaþjónustunnar, þetta er bara óskrifað blað.”
Segist hann gera sitt besta til að bjóða upp á góða þjónustu og að lokum vill hann koma á framfæri þakklæti til viðskiptavina fyrir þolinmæði og trygga þjónustu.
Mynd á topp: Óskar Elías ásamt barnabarninu sínu Bríeti Ósk.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst