Í Vestmannaeyjum hefur hlaupamenning verið hratt vaxandi undanfarin ár, Puffin Run nýtur sívaxandi alþjóðlegra vinsælda, hlaupahópurinn Eyjaskokk er áberandi og stýrir ofurhlauparinn Friðrik Benediktsson skipulögðum hlaupaæfingum ásamt því að fjölmargir áhugahlauparar finnast víða skokkandi um Eyjuna þvera og endilanga.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Sindri Ólafsson eru áhugahlauparar sem hafa í gegnum tíðina stundað útihlaup nokkuð reglulega og tekið oft þátt í bæði Vestmannaeyjahlaupinu og Puffin Run en ákváðu að nýta árið í ár til að stækka hlaupasjóndeildahringinn.
42 km fyrir 42 ár
„Sindri fékk þá flugu í höfuðið í fyrra að við ættum að skrá okkur í maraþonhlaup á þessu ári þar sem við værum 42 ára og myndum þá hlaupa km fyrir hvert ár,“ segir Hildur Sólveig ,,Kunningi okkar mælti með maraþonhlaupinu í Valencia þar sem sú braut er mjög flöt og hlaupið þekkt fyrir að vera líflegt og borgin falleg.,,Sem sjúkraþjálfari viðurkenni ég að ég hef oft haft ákveðnar efasemdir varðandi maraþonhlaup, óhóflegu álagi á stoðkerfið en ákvað að láta slag standa og sé alls ekki eftir því í dag, Markmið sem eykur aðhald við þjálfun og kostir þess að sinna reglulega úthalds- og styrktarþjálfun vega hratt upp á móti mögulegum neikvæðum áhrifum af langhlaupum.
Undirbúningurinn skemmtilegt samvinnuverkefni
Við byrjuðum að æfa af einhverju viti í byrjun september á þessu ári og fylgdum við bæði frekar einföldu gervigreindarprógrammi en Sindri fékk líka mörg góð ráð hjá Friðriki og ég nýtti mér hlaupaforritið Runna til að fínpússa betur undirbúninginn síðustu vikurnar fyrir hlaupið. Maður fann það fljótt hvað það að hlaupa eftir markvissu prógrammi skilaði manni betri hraða og formi.
,Ég er mjög þakklát að við fórum í þessa vegferð saman, enda krefst svona undirbúningur talsverðar fjarveru frá heimili og lykilatriði var sameiginlegur skilningur á mikilvægi þess að púsla hlaupum inn í nú þegar þétta dagskrá heimilisins. Eins hefði ég eflaust orðið fljótt þreytt á endalausu spjalli um hlaupahraða, hlaupaskó, hlaupagel og þar fram eftir götunum ef ég hefði ekki verið að taka þátt í þessu með honum.

Maraþonið ákveðin uppskeruhátíð
Það var mikill spenningur fyrir hlaupinu sjálfu og ég viðurkenni að ég var talsvert stressaðri fyrir hlaupinu en Sindri, við vorum með mismunandi markmið fyrir hlaupið enda Sindri mun hraðari hlaupari en ég, samt vék kvíði og stress fljótt fyrir spenningnum og tilhlökkuninni.
Valencia er mögnuð borg og hlaup eru frábær leið til að kynnast nýjum stöðum og upplifa menninguna á annan máta. Ég er almennt frekar hrifnæm, nærðist mikið á þeim aragrúa áhorfenda og hljómsveita sem mættu til að hvetja þátttakendur og sótti mikla orku frá þeim.
Maraþon er ekkert síður andleg þolraun en líkamleg og er misjafnt hvernig fólk brýtur hlaupið upp í huganum til að einblína ekki á hversu löng vegalengdin er í raun. Þannig hugsaði ég t.d. upphaflega fyrstu 10 km sem ákveðna upphitun, svo væri þettac.aa. eitt hálfmaraþon og loks aðrir rúmir 10 km í niðurskokk, eins tileinka margir hlauparar ákveðna kílómetra ákveðnum einstaklingum í lífi sínu og hlaupa í þeirra nafni en þegar ég hljóp af stað þá ákvað ég að nota kílómetrana til að fara yfir lífshlaupið.

Þannig var fyrsti kílómetrinnn mikill æsingur, hávaði og adrenalínið á fullu og maður vissi ekkert hvað maður var að gera. Eftir því sem leið á kílómetrana fór að verða meira vit í þessu og við 6 km var ég byrjuð í skóla, 11 km var ég að flytja til Eyja, 16 km byrjaði ég með Sindra, 20 km byrjaði ég í háskólanámi, 24 km útskrifaðist ég, 27 km eignaðist ég Aron, 30 km eignaðist ég Söru Rós, 38 km eignaðist ég Drífu og svo virtust síðustu kílómetrarnir nú vera óvenju langir en ég náði að halda góðum hraða og kláraði vel undir markmiðinu mínu sem ég var að vonum hæstánægð með.
Við fengum frábært veður í hlaupið, eiginlega of gott ef þú spyrð Sindra sem lenti aðeins í vandræðum með hitastigið en heilt yfir var þetta frábær reynsla sem við áttum saman og ekki skemmdi fyrir að pabbi sem er með fasta búsetu á Spáni og Elín Rós konan hans komu yfir helgina til að styðja okkur í þessu verkefni sem mér þótti mjög vænt um.
Þetta var mikið ævintýri sem ég mæli heilshugar með og var í raun Maraþonið ákveðin uppskeruhátíð á kröftugum hlaupavetri. Ég hvet alla áhugasama um hlaup að finna sér raunhæf markmið og fylgja góðu plani, það er alltaf gaman að ögra sjálfum sér og koma sjálfum sér skemmtilega á óvart,’’ segir Hildur Sólveig að lokum en hún er sjúkraþjálfari hjá Physio ehf.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst