Pólski sendiherrann á Íslandi vonar að nýr Herjólfur verði afhentur Vegagerðinni í næsta mánuði. Hann hafði milligöngu um fund fulltrúa skipasmíðastöðvarinnar hjá samgönguráðherra fyrir helgi. Ráðherra segist hafa hvatt til þess að skipasmíðastöðin og Vegagerðin næðu saman sem fyrst svo afhenda megi skipið, segir í frétt á Vísi.is
Fulltrúar pólsku skipasmíðastöðvarinnar hittu Sigurð Inga Jóhannsson samgönguráðherra í ráðuneyti hans á föstudag. Þeir buðu íslenska ríkinu að bankaábyrgð vegna smíði Herjólfs verði framlengd til þriggja mánaða til að liðka fyrir samningaviðræðum.
Deila um afhendingu nýs Herjólfs kom til tals þegar utanríkisráðherra Póllands fundaði með íslenskum starfsbróður sínum í Reykjavík í upphafi mánaðarins. Pólski sendiherrann segir að þrýstingur um að hann myndi beita sér í málinu hafi verið meiri frá Íslendingum en Pólverjum. „Það voru íslenskir þingmenn sem höfðu áhyggjur af flutningum á milli Íslands og hinna fallegu Vestmannaeyja,“ segir Gerard Pokruszyński, sendiherra Póllands á Íslandi og bætir við: „Ferjan er tilbúin, við getum afhent hana innan mánaðar.“
Að sjálfsögðu eru menn að tala saman
Sigurður Ingi segir að samningar um smíði Herjólfs standi og þar sé tekið á öllum þeim breytingum sem hafi verið gerðar í smíðaferlinu. „Séu einhverjar aðrar kröfur upp á borðinu voru menn sammála um að það færi þá fyrir gerðardóm, það er hin eðlilega leið,“ segir ráðherra.
Þannig að það er annaðhvort fjórir milljarðar eða gerðardómur? Menn eru ekkert að ræða saman um eitthvað þar á milli? „Að sjálfsögðu eru menn að tala saman. Það eru liðnar nokkrar vikur frá því að mér skilst að menn hefðu getað sett punktinn fyrir aftan samningana. Ég vænti þess að menn geri það sem hraðast. Það var að minnsta kosti mín hvatning til þessara aðila á föstudaginn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst