Við sögðum frá því í byrjun vikunnar að 6. flokkur ÍBV hafi tryggt sér Íslandsmeistartitilinn í handbolta um helgina. Ellert Scheving Pálsson, framkvæmdastjóri ÍBV á son í liðinu, Daníel Gauta.
„Það hefur verið einstaklega gaman að fylgjast með þessum strákum í vetur. Ekki nóg með það að þeir séu efnilegir handboltamenn þá er framkoma þeirra innan vallar sem utan til fyrirmyndar. Þessir strákar hafa einstaklega mikið keppnisskap og það hefur verið alveg síðan þeir voru kornungir. Þeir virðast vera að læra að beisla það inni á vellinum en það má alltaf gera betur. Þrátt fyrir alla keppnina í þeim, ríkir mikil vinátta í hópnum. Þetta er mjög samheldinn hópur, það er mikilvægt.
Sem foreldri var maður afskaplega stoltur af strákunum um helgina. Stóðu sig frábærlega innan vallar sem utan. Kurteisir og háttvísir. Þeir uppskáru svo sannarlega því sem þeir sáðu.“
segir Ellert í samtali við Eyjar.net. En það er fleira skemmtilegt við þennan titil strákana um helgina.
Á sama móti, á sama stað, á sama aldri, í sama flokki og meira að segja í sama húsi
„Það var líka sérstaklega gaman að þessu fyrir mig þar sem ég varð Íslandsmeistari fyrir 25 árum, árið 1999. Á sama móti, á sama stað, sama aldri, sama flokki og meira að segja í sama húsi. Það var sérstaklega skemmtilegt. Í þá daga lék ég fyrir FH en ég er alinn upp í Hafnarfirði.
Þá var engin Arnór Viðarsson að þjálfa og landslagið töluvert annað í þjálfun og nálgun þjálfara við unga leikmenn. Viðar Símonarson, fyrrum landsliðsmaður, var þjálfari. Þegar maður lítur til baka þá var þetta bara nánast “Sovésk” nálgun. Menn fengu svoleiðis að heyra það ef þeir voru að gera eitthvað sem þeir áttu ekki vera að gera, hvort sem það var inni á vellinum eða utan hans. Það var mikill agi og engin fíflagangur. Það skilaði töluverðum árangri en ég þori að fullyrða að þessi aðferðir myndu ekki duga í dag.“
segir Ellert Scheving Pálsson.
https://eyjar.net/tryggdu-ser-titilinn-fyrir-nordan/
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst