Togarar í Síldarvinnslusamstæðunni hafa landað alllvíða að undanförnu. Bergey VE landaði í Vestmannaeyjum á sunnudag, Vestmannaey VE landaði í Neskaupstað í gær og Gullver NS er að landa á Seyðisfirði í dag.
Rætt er við skipstjórana á vefsíðu Síldarvinnslunnar og eru þeir spurðir frétta. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergey, sagði að komið hefði verið að landi með nánast fullfermi. „Við fengum aflann á Pétursey og Vík. Aflinn var langmest þorskur og síðan svolítið af ufsa með. Þetta var fínasti vertíðarfiskur. Veðrið var hið þokkalegasta þar til í lokin en við enduðum í skítabrælu. Að lokinni löndun var látið úr höfn á sunnudagskvöld og haldið áleiðis austur fyrir land. Það verður leiðindaveður við suðurströndina næstu daga,” sagði Ragnar Waage.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að landað hefði verið fullfermi í Neskaupstað. „Aflinn var langmest þorskur og var um blandaðan fisk að ræða. Við hófum veiðar út af Langanesi og á Brettingsstöðum en þar var heldur rólegt. Þá var farið á Digranesflak og einnig veitt á Eilífðarkantinum út af Héraðsflóa. Í lokin fórum við í Litladýpið. Á þessum slóðum er fiskurinn í loðnu. Að löndun lokinni var haldið til veiða á ný og nú skal eltast við ýsu. Ég geri ráð fyrir að við löndum á ný á fimmtudag,” sagði Birgir Þór.
Þórhallur Jónsson á Gullver lét vel af veiðiferðinni. „Við erum að landa 115 tonnum á Seyðisfirði í dag. Helmingurinn af aflanum er þorskur en hinn helmingurinn ufsi og ýsa. Túrinn tók sex og hálfan sólarhring og það var víða farið. Við byrjuðum á Breiðdalsgrunni og allt vestur á Stokksnesgrunn í leit að ufsa og ýsu. Síðan var farið á Digranesflak í þorsk og á Gletting í ýsu. Loks var endað á Tangaflaki. Þetta var í reynd fínasti túr,” sagði Þórhallur.