Vinnslustöðin og nýtt dótturfélag hennar, VSV Finland Oy, kynntu á dögunum starfsemi sína, vörur og þjónustu í þremur boðum sama daginn í móttökusal sendiráðs Íslands í Helsinki. Matreiðslumeistarinn Einar Björn Árnason – Einsi kaldi í Vestmannaeyjum athafnaði sig í sendiráðseldhúsinu og galdraði fram rétti úr sjávarfangi fyrir allan gestaskarann, mat sem var fagur á diski og unaðslega góður og eins og honum einum er lagið að búa til.
Fyrsta boðið var kl. 11, það næsta kl. 13 og hið síðasta kl. 18. Þarna mætti fólk í viðskiptalífinu, eigendur veitingahúsa og matreiðslumeistarar, samstarfsfólk VSV Finland OY í flutningageiranum og víðar að, fjölmiðlamenn og meira að segja stjórnmálamenn.
Antti Kurvinen, landbúnaðar- og skógræktarráðherra í ríkisstjórn Sönnu Marin heiðraði gestgjafa og aðra með nærveru sinni. Eftir því var tekið að hann skyldi verja þarna dýrmætum tíma sínum í ljósi þess að þingkosningar eru í Finnlandi sunnudaginn 2. apríl næstkomandi. Kosningabarátta er í fullum gangi með öllu því ati og álagi sem slíku fylgir fyrir frambjóðendur með þéttbókaða dagskrá stóran hluta sólarhringsins.eins
Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki, er ekki í vafa um að þessi kynning hafi skilað því sem henni var ætlað að gera:
„Við fengum frábæran hóp, yfir hundrað manns. Allt lykilfólk í þeim geira finnsks atvinnu- og viðskiptalífs sem gestgjafarnir áttu mest erindi við. Þarna voru til dæmis fulltrúar mikilvægustu veitingahúsakeðja og stórverslana hér.
Þegar á heildina er litið var viðburðurinn afar vel heppnaður og óvenju vel sóttur. Það sem Vinnslustöðvarfólk hafði fram að færa er örugglega vel kynnt á þeim stöðum sem máli skiptir.“
Sigurgeir B. Kristgeirsson – Binni framkvæmdastjóri VSV lýsir viðburðinum og aðdragandanum:
„Við hjá Vinnslustöðinni höfum í nokkur ár haft augastað á Finnlandi og finnskum markaði fyrir fisk og hugðum okkur til hreyfings en COVID setti þar strik í reikninginn eins og í flestu öðru. Mál var sett í biðstöðu en síðla árs 2022 fóru hlutir að gerast.
Við stofnuðum VSV Finland Oy í Helsinki síðla árs 2022 og réðum til starfa Finna sem höfðu aflað sér þekkingu og reynslu í innflutningi á eldislaxi, markaðssetningu, sölu og dreifingu heima fyrir og í Eystrasaltsríkjunum. Meginverkefni nýja dótturfélagsins er annars vegar að flytja eldislax frá Noregi sölu og dreifingar í Finnlandi og víðar en hins vegar að flytja inn fisk og sjávarfang frá Íslandi og frá öðrum norrænum ríkjum til dreifingar í Finnlandi og á öðrum mörkuðum Evrópu eftir atvikum.
Dótturfélagið hefur heldur betur tekið flugið á fáeinum mánuðum og við fylgdum því eftir með því að sýna okkur og sjá aðra í Helsinki á dögunum, í afar velheppnum boðssamkomum í salarkynnum íslenska sendiráðsins. Þökk sé lipru og gjöfulu samstarfi við hjónin Harald Aspelund sendiherra og Ásthildi Jónsdóttur.
Erindi okkar var auðvitað að kynna Vinnslustöðina, dótturfélagið nýja, starfsemi beggja félaga, framleiðsluvörur og samstarf við finnsk fyrirtæki. Við áttum jafnframt sérstakt erindi við matreiðslumeistara og eigendur veitingahúsa til að sýna þeim og segja frá verkefni og vörum sem Vinnslustöðin og Einar Björn meistarakokkur hafa þróað í sameiningu. Þetta snýst um íslenskt sjávarfang sem matreitt er í anda Einsa kalda með tilheyrandi umgjörð og þjónustu. Við höfum lagt tíma og fjármuni i nýsköpunarverkefnið og vonandi skilar það tekjum þegar fram í sækir. Áhuginn í Helsinki var í það minnsta ótvíræður og lofar góðu.“
Vinnslustöðvarfólk á ferð í Helsinki fékk að kynnast vörum sem Finnar framleiða á finnskan máta úr fiski og sjávarfangi frá Íslandi. Það var upplifun. Ofarlega í huga Binna framkvæmdastjóra er sömuleiðis að hafa staðreynt enn einu sinni hve utanríkisþjónusta Íslands reynist vel og dyggilega í aðstoð við fyrirtæki þegar á þarf að halda á erlendri grundu.
„Finnar eru mikil fiskneysluþjóð. Við höfum auðvitað vitað lengi að þeir væru síldarunnendur, minnugir þess að Íslendingar fóru að selja þeim síld árið 1930. Eldisfiskur er samt ein helsta útflutningsvaran frá Íslandi til Finnlands. Finnar borða annars mikið af fiski sem ræktaður er í vötnum og svo eldislax frá Noregi í stórum stíl.
Við fengum kaldreyktan þorsk og sömuleiðis afar góðan þorsk í sérstakri maríneringu heimamanna. Reyktur makríll er í hávegum hafður í Finnlandi og síðast en ekki síst nefni ég síldarsalöt, finnska þróunarvöru úr afurðum Vinnslustöðvarinnar. Virkilega spennandi framleiðsla sem markaðssett verður í Finnlandi.
Ég hlýt svo að nefna og þakka sendiherrahjónunum og starfsfólki sendiráðs Íslands í Finnlandi alveg sérstaklega fyrir hlut þeirra í kynningunni og öllu tilheyrandi.
Fyrir sléttu ári síðan, í febrúar 2022, nutum við ómetanlegrar aðstoðar Stefáns Hauks Jóhannessonar sendiherra í Japan og samstarfsfólks hans við að kynna loðnu og loðnuafurðir í Tókýó.
Og ef ég spóla lengra til baka nefni ég ómetanlega aðstoð Alberts Jónssonar, þáverandi sendiherra Íslands í Moskvu, þegar rússneska matvælastofnunin vildi þvinga Vinnslustöðina og fleiri íslensk fyrirtæki til mynda einokunarhring og borga fúlgur fjár til að liðka fyrir samskiptum og viðskiptum. Við höfnuðum að sjálfsögðu staðfastlega að taka þátt í slíku. Íslensk stjórnvöld unnu með okkur í málinu og þar fór Albert sendiherra fremstur. Ég gaf þá íslensku utanríkisþjónustunni hiklaust hæstu einkunn fyrir dugnað og ómetanlega aðstoð.
Samskiptin við sendiráðin í Japan í fyrra og Helsinki nú voru auðvitað af allt öðrum toga en forðum þegar glímt var við spillingu í Rússlandi. Í öllum tilvikum reyndust fulltrúar íslenskrar utanríkisþjónustu hins vegar afar faglegir, dugmiklir og hjálpsamir. Slík aðstoð er ómetanleg íslenskum fyrirtækjum þegar þau þurfa á stuðningi að halda og fyrir hana ber að þakka.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst