Safnahelgi í Vestmannaeyjum er nú komin inn á helgina og verður hér rakið það helsta sem í boði er á fyrri deginum, laugardegi.
Dagurinn hefst í Gestastofu Sealife Trust að Ægisgötu 2. Þar rúllar á tjaldi allan daginn, kl. 10:00-16:00 ljósmyndasýning Tesni Ward og UK Press Association. Sýningin fjallar um hið einstaka og langa ferðalag mjaldrasystranna alla leið frá Kína til Íslands og þaðan til lokaheimkynna, Vestmannaeyja.
Kl. 13-15 er bókakynning í Einarsstofu. Kristín Ástgeirsdóttir kynnir og les úr ævisögu ljúflingsins og tónskáldsins Oddgeirs Kristjánssonar sem allir Vestmannaeyingar og Íslendingar þekkja vegna hinna fjölmörgu og stórkostlegu sönglaga sinna. En hver var maðurinn og hvernig leið hin alltof stutta ævibraut? Þótt flestir meðal þeirra sem komnir eru af barnsaldri telji sig geta svarað spurningunni og oft með ærinni þekkingu mun margt koma verulega á óvart í samantekt Kristínar. Svo háttar oft til um „þjóðareign“ sem allir telja sig þekkja. Vegna óviðráðanlegra aðstæðna munu Erla Hlynsdóttir og Rannveig Borg Sigurðardóttir kynna bækur sínar í gegnum vefstreymi. Bók Rannveigar ber heitið Fíkn og er fyrsta bók hennar. Eins og nafnið gefur til kynna fjallar bókin um vandann og áskorunina í mannheimum þegar fíkn af hvaða tagi sem er tekur völdin. Erla segir frá bók sinni 11000 volt: þroskasaga Guðmundar Felix en hann missti báða handleggi sína í hræðilegu slysi aðeins 25 ára að aldri og þurfi að takast á við gerbreytt líf. Öll þjóðin hefur undanfarið fylgst með því þegar græddir voru á hann handleggir í byrjun þessa árs en aðgerðin mun vera einsdæmi á heimsvísu.
Kl. 13:00-16:00 er opið á Bókasafninu. Föndur verður í boði allan tímann inni á Ingólfsstofu og Sögustund kl. 13:15 og kl. 14:15. Tilvalið að koma með börnin í Safnahúsið, hlusta á skemmtilegar bókakynningar og leyfa börnunum að njóta sín í safninu á meðan.
Árlegir tónleikar Lúðrasveitar Vestmannaeyja fara fram í Hvítasunnukirkjunni við Vestmannabraut og hefjast kl. 16:00. Það er vel við hæfi að fara á tónleikana eftir að hafa hlustað á kynningu á ævisögu Oddgeirs þar sem hann var var stofnandi og stjórnandi þessarar sveitar árið 1939, sem gerir hana að einni elstu lúðrasveit landsins.
Á veitingastaðnum Gott munu Arnór og Helga flytja sín hugljúfu lög undir veislukosti staðarins og munu þau gleðja gesti frá kl. 18:00 og fram eftir kvöldi.
Kvöldinu lýkur að þessu sinni kl. 20:30 í Kviku, menningar- og kvikmyndahúsi þar sem Leikfélag Vestmannaeyja flytur kvöldskemmtunina Síðan eru liðin mörg ár.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst