Norlandair undirbýr nú að hefja áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja í byrjun næsta mánaðar. Flugið mun stytta ferðatímann verulega og bæta samgöngur til og frá Eyjum, að sögn Rúnu Bjarkar Magnúsdóttur, starfsmanns Norlandair.
„Flug er mjög skilvirkur og fljótlegur samgöngumáti. Þessi flugleið styttir ferðatímann milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur umtalsvert,“ segir hún og bætir við að fimmtudagar verði sérstaklega hentugir fyrir styttri ferðir í bæinn. „Þá verða bæði morgun- og síðdegisflug í boði, þannig að fólk getur sinnt erindum í borginni án þess að þurfa að vera yfir nótt.“
Áætlunin gerir ráð fyrir fimm ferðum í viku. Flogið verður einu sinni á mánudögum, föstudögum og sunnudögum, en tvisvar á fimmtudögum, að morgni og síðdegis. Áætlaður flugtími er einungis um 25 mínútur. Flogið verður á KingAir Beechcraft 200 vélum sem taka níu farþega. „Þetta eru þægilegar, liprar vélar sem henta vel á þessari leið,“ segir Rúna.
Hún segir flugleiðina mikilvæga viðbót við núverandi samgöngur milli lands og Eyja. „Það er alltaf mikilvægt að hafa fjölbreytta og örugga samgöngukosti og ekki síður á veturnar þegar færð á vegum tekur að spillast eða vont er í sjóinn. Þessi flugleið er hugsuð til að mæta mismunandi þörfum einstaklinga og gera fólki kleift að velja þann ferðamáta sem hentar hverju sinni.“
Allar upplýsingar um ferðir, tíma og verð má finna á heimasíðu Norlandair, þar sem einnig er hægt að bóka og breyta bókunum. „Kíktu á www.norlandair.is, kynntu þér allt um flugið og bókaðu þinn miða,“ segir hún. Eyjamenn með lögheimili í Vestmannaeyjum geta auk þess nýtt Loftbrúar-afsláttinn á þessari nýju flugleið, sem ætti að gera flugið enn aðgengilegra fyrir íbúa.
Norlandair hefur gert samning við Vegagerðina um rekstur flugleiðarinnar til Vestmannaeyja út febrúar. Rúna vonast til að góð viðbrögð og nýting verði til þess að fluginu verði haldið áfram. „Það væri mjög ánægjulegt ef vilji fyrir áframhaldandi flugi verður til staðar þegar tímabilinu lýkur,“ segir hún.
Að hennar mati skiptir innlenda flugsamgöngukerfið miklu fyrir búsetu og þjónustu um allt land. „Flugið er eina hraðsamgöngukerfi á Íslandi. Því er mikilvægt að hlúa að og þróa flugleiðir innanlands til þess að bæta lífskilyrði um allt land. Við sjáum fyrir okkur að allir landshlutar verði tengdir með flugi ásamt því að halda úti öflugu leiðarkerfi til og frá Reykjavík.“
Að lokum sendir hún Eyjamönnum hlý skilaboð frá félaginu. „Það er mikil eftirvænting hjá Norlandair að hefja flug á þessa fallegu eyju og kynnast betur fólkinu sem þar býr. Við hlökkum virkilega til að taka á móti ykkur um borð.“
Gildistími 1. desember 2025 – 28. febrúar 2026
| Mán, fös | Brottför | Lending | |
| FNA 590 | RKV – VEY | 08:15 | 08:40 |
| FNA 591 | VEY – RKV | 09:00 | 09:25 |
| Fim | Brottför | Lending | |
| FNA 590 | RKV – VEY | 08:15 | 08:40 |
| FNA 591 | VEY – RKV | 09:00 | 09:25 |
| FNA 592 | RKV – VEY | 16:00 | 16:25 |
| FNA593 | VEY – RKV | 16:45 | 17:10 |
| Sun | Brottför | Lending | |
| FNA 570 | RKV – VEY | 12:30 | 12:55 |
| FNA 571 | VEY – RKV | 13:15 | 13:40 |




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst