Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs Vestmannaeyjabæjar, svaraði um helgina fyrir hönd bæjarins spurningum Eyjafrétta um kennslufyrirkomulag í verkdeild Grunnskóla Vestmannaeyja. Þar hefur komið fram að nemendur fá færri kennslustundir en aðalnámskrá gerir ráð fyrir.
Bærinn heldur því fram að fatlaðir nemendur í verkdeild ráði illa við lengri skóladag. Af þeirri ástæðu sé kennslumagn takmarkað við tímabilið frá kl. 8:20 til 12:40 alla virka daga. Þetta jafngildir 27 kennslustundum á viku. Samkvæmt aðalnámskrá eiga nemendur í 5.–7. bekk að fá 35 kennslustundir á viku og nemendur í 8.–10. bekk 37 kennslustundir. Þá segir bærinn að forráðamenn samþykki frávikið með undirritun einstaklingsnámskrár. Þannig eru kennslustundir fatlaðra barna skertar um 8–10 á viku, eða allt að 25% miðað við aðalnámskrá.
Eyjafréttir hafa rætt við foreldra sem eiga börn í verkdeild og einnig við foreldra sem áður hafa átt börn þar. Þeir gagnrýna að upplýst samþykki hafi ekki verið til staðar. Aldrei hafi verið útskýrt hvaða réttindi börnin hafi um fjölda kennslustunda þegar einstaklingsnámskrá var undirrituð.
Foreldrar segja einnig að ekki hafi átt sér stað samtal um hvort börnin réðu við fullan skóladag. Þvert á móti telji margir að börn þeirra hefðu vel ráðið við slíkan dag ef dagskráin hefði tekið nægilegt mið af þörfum þeirra. Í einhverjum tilvikum hafi foreldrar beinlínis óskað eftir fullum skóladegi en ekki fengið.
Eitt foreldranna, Örvar Guðni Arnarson lýsir málinu þannig að verkdeild hafi í upphafi verið sett upp með því fyrirkomulagi að hún starfaði aðeins til kl. 12:40. Starfsfólk hafi því verið sett í erfiða stöðu þegar það þurfti að bregðast við kröfum foreldra um fleiri kennslustundir. Að mati foreldra ættu bæjaryfirvöld ekki að svara með „útúrsnúningum og rangfærslum“ heldur einfaldlega viðurkenna mistök og bæta úr málinu til framtíðar.
Bæjaryfirvöld hafa nú að hluta til brugðist við gagnrýninni. Skólinn hefur útvegað nokkrar viðbótarkennslustundir á viku ofan á þær 27 sem áður voru, þó aðeins – eins og áður segir – að hluta.
Þessu tengt:
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst