Bjórhátíðin The Brothers Brewery “Street Food and Beer festival” fór fram á laugardaginn var og þótti takast vel til. Það var þó ekki sjálfgefið því veðurspáin var ekki endilega með þeim bræðrum í liði. „Þetta gekk í raun vonum framar, við vorum farnir að hafa miklar áhyggjur viku fyrir hátíð vegna veðurspá en þetta gekk allt eins og best verður á kosið,“ sagði Jóhann Guðmundsson, bruggmeistari The Brothers Brewery. „Við vorum búnir að gera ráðstafanir með stækkun á tjaldinu þannig að allir komust vel fyrir og enginn þurfti að bíða lengi eftir að fá glasið sitt fyllt.“
Jóhann sagði að um 320 manns hafa verið á og í kringum hátíðina í ár. „Við ákváðum frá upphafi að selja bara 250 miða og það er sá fjöldi sem að var á hátíðinni en svo voru í kringum 70 bruggarar og starfsmenn sem koma einnig. Þannig að þetta var um 320 manns í heildina.
Aðspurður hvort áætlað sé að endurtaka leikin að ári sagði Jóhann það nokkuð ljóst. „Í fyrra tók það okkur restina af sumrinu að gleyma því hvað þetta var mikil vinna áður en við vorum tilbúnir að halda aðra hátíð en nú í ár getum við eiginlega sagt strax að við verðum með þetta aftur að ári því þetta gekk það vel.“
Frábært framtak hjá The Brothers Brewery sem hefur svo sannarlega haft jákvæð áhrif á mannlífið í Vestmannaeyjum með innkomu sinni á markaðinn.
Að lokum vildi Jóhann koma á framfæri kærum þökkum fyrir frábæra helgi sem og frábærar síðustu viku eftir að þeir fengu að opna aftur eftir samkomubann.
Hér að neðan má svo sjá myndir frá okkar manni Óskari Pétri.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst