Fræðsluráð Vestmannaeyja hefur samþykkt tillögu framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs um að fara í formlegt útboð á skólamáltíðaþjónustu fyrir leik- og grunnskóla bæjarins. Sami aðili hefur séð um heitar skólamáltíðir í Eyjum frá árinu 2008, en talið er að forsendur hafi breyst og tímabært að endurmeta fyrirkomulagið.
Á fundi fræðsluráðs fór framkvæmdastjórinn yfir stöðu mála. Kom fram að almenn ánægja hafi verið með þjónustu núverandi umsjónaraðila allt frá því hann tók við fyrir rúmum 15 árum. Fyrir þann tíma var allur matur eldaður í leikskólum bæjarins, en í grunnskólanum var þá boðið upp á svokallaðan spónamat og brauð.
Áhersla Vestmannaeyjabæjar er að bjóða upp á heita skólamáltíð bæði í leik- og grunnskólum sem uppfyllir kröfur lýðheilsumarkmiða um gæði og hollustu. Þá hefur verið lögð áhersla á að maturinn sé eldaður í Eyjum af aðilum sem hafa til þess leyfi, aðstöðu og þekkingu.
Á árinu 2024 var boðið upp á yfir 120 þúsund skammta af skólamáltíðum í leik- og grunnskólum Vestmannaeyjabæjar. Eftir að fæði í grunnskólum varð gjaldfrjálst hefur kostnaður aukist og jafnframt áhyggjur af matarsóun. Var það nefnt sem ein ástæða þess að eðlilegt sé að yfirfara stöðuna nú.
Samkvæmt innkaupareglum Vestmannaeyjabæjar þarf reglulega að bjóða út slíka þjónustu. Óformlegar kannanir í gegnum árin hafa þó leitt í ljós að ekki hafi verið aðrir aðilar reiðubúnir til að bjóða í þjónustuna. Nú er talið að forsendur séu breyttar og því lagt til að farið verði í útboð.
Gert er ráð fyrir að tímasetning útboðsins og nánari útboðsskilmálar verði ákveðnir í samráði við skólastjórnendur og taki mið af því sem hentar skólastarfinu í leik- og grunnskólum. Fræðsluráð þakkaði kynninguna á fundi sínum og samþykkti framlagða tillögu.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst