Framtíðarsýn
5. mars, 2024
Vestmannaeyjahöfn. Skjáskot/Halldór B. Halldórsson

Að undanförnu hefur verið mikil umræða um hugsanlegar breytingar á Vestmannaeyjahöfn, bæði við Löngu og austur í Brimnesfjöru með garði út fyrir Klettsnef, á fésbókinni og fékk ég fyrir nokkru síðan þá spurningu hver mín framtíðarsýn væri á þessum svæðum sem og öðrum sem tengjast höfninni. 

Að mörgu leyti skil ég vel þá skoðun sumra að vilja ekkert inni í Löngu, sem og ekki heldur í Brimnesfjöru og að vissu leyti er ég algjörlega sammála ályktun Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja um það, að fjaran á móti Klettsnefinu sé nú kannski ekki heppilegasti staður fyrir gáma en um þetta má, og verður sjálfsagt deilt áfram, en sjálfur hef ég meiri áhyggjur af þessum varnargarði sem á að standa þarna til varnar innsiglingunni, en þar er sjólagið einmitt gríðarlega slæmt í austan brælum og ef ekki yrði gerður brimbrjótur austan við garðinn, þá yrði sá garður varla langlífur.

En hver er mín framtíðarsýn?

Ég hef alltaf séð fyrir mér uppbyggingu fyrir Eiðinu, stórskipaviðlögukant sem væri þá helst með tveimur viðlöguköntum fyrir skip allt að 3 til 400 m löng. Þar væri síðan hægt að taka á móti ferðamönnum sem færu þá í gegnum göngin, bæði gullna hringinn og austur í jökulsárlón og í raun og veru væri þetta að einhverju leyti hægt, þó að það væru ekki komin göng, enda hafa ferðamenn farið í dagsferðir í rútum með Herjólfi upp á land og þá kannski stoppa skipin aðeins lengur hér hjá okkur, enda dugar varla dagurinn til þess að skoða allt það sem er í boði hér í Eyjum. 

En hver er framtíðarsýn mín varðandi innsiglinguna?

Ég tel gámasvæði austur í Brimnesfjöru EKKI sniðuga hugmynd út af svo mörgum ástæðum t.d. vegna náttúruspjalla, einnig er ljóst að mikil vandamál myndu skapast ef flytja ætti alla gáma frá höfninni austur í Brimnesfjöru. Helsti kosturinn væri kannski þá, að það sem kæmi í framtíðinni frá Laxey þyrfti þá ekki að fara í gegnum bæinn, en mér finnst persónulega gallarnir við hugmyndina vera fleiri en kostirnir. 

Varðandi innsiglinguna sjálfa þá sé ég hana alltaf fyrir mér eins og hún er núna. Klettsnefið með iðandi fuglalífi og hraunið á móti, Klettsvíkin síðan með allri sinni fegurð og þegar innar kemur, Skansinn með þeirri uppbyggingu sem þar hefur þegar orðið og þar á víkinni, allur nýmálaður og skveraður Blátindur eins og þegar hann var hvað flottastur með jafnvel fallbyssu á hvalbaknum, enda var hann í einhvern tíma varðskip íslendinga og að sjálfsögðu væri flaggað á hverjum degi uppi í siglutré. Hugsanlega væri hægt að nota hann í eitthvað tengt ferðaþjónustunni eða jafnvel sem skólaskip, en aðal atriðið er kannski að þessi síðasti trébátur sem smíðaður var í Vestmannaeyjum væri sýnd sú virðing sem honum ber sem minnisvarði um það tímabil sem lagði grunninn að því samfélagi sem við búum í í dag.

Nú veit ég að minjastofnun sendi sérfræðing fyrir nokkrum árum síðan til þess að taka út Blátind og að skýrsla var gerð, þar sem mér er sagt að m.a. komi fram hugmyndir um bæði hvernig best væri að gera hann upp og eins, hvernig hugsanlega væri hægt að fjármagna það og að sú skýrsla sé til hér í Vestmannaeyjum. Gaman væri ef einhver væri til í að birta hana, virðingarfyllst.

 

Georg Eiður Arnarson

 

Síðasta grein eftir höfund.

https://eyjar.net/saga-landeyjahafnar/

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst