Kvennaráðstefnan Mey fór fram í Sagnheimum fyrir fullum sal kvenna í gær. Markmið Mey er að sameina konur, styrkja, gleðja og valdefla. Dagskráin var fjölbreytt og skemmtileg, en þrír fyrirlesarar stigu á svið yfir daginn.
Fyrst á svið var Anna Steinsen, eigandi Kvan. Anna starfar sem fyrirlesari, þjálfari, markþjálfi og jógakennari. Anna ræddi um mikilvægi gleði og orku í daglegu lífi, hún peppaði hópinn og kom inn með góða og jákvæða orku inn í daginn. Næst var það Kristín Þórsdóttir, en Kristín er stofnandi og eigandi Eldmóðurs ehf. Hún er vottaður markþjálfi, kynlífsmarkþjálfi og Cranio meðferðaraldi. Hennar helsta ástríða er að fræða konur um hvernig þær geti tengst sjálfri sér og líkama á dýpri hátt og gerði hún það í gær. Að lokum tók Perla Magnúsdóttir við og peppaði hópinn með áhrifamiklum fyrirlestri sem sneri að því að hvetja fólk til að velja sér viðhorf til lífsins, þar sem hún fjallaði um hvernig bjart viðhorf getur breytt öllu. Perla starfar sem fyrirlesari og leiðsögumaður, og er einnig nemi í jákvæðri sálfræði.
Eftir fyrirlestrana var boðið upp á ljúffengan mat hjá Gísla Matthíasi Slippnum. Þar fengu konurnar tækifæri til að tengjast, ræða fyrirlestrana og njóta saman. Tónlistakonan Elísabet Guðnadóttir, eða Eló eins og hún er kölluð spilaði og söng fyrir gesti á meðan borðhaldi stóð. Mikil og góð stemning ríkti á ráðstefnunni og var dagurinn einstaklega vel heppnaður í alla staði.
Myndirnar tók Guðbjörg Guðmannsdóttir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst