Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri Vestmannaeyja afhendi fyrir hönd lögregluembættisins Björgunarfélaginu gjöf um helgina í tilefni að 100 ára afmæli félagsins. Páley sagði í ræðu sinni að gjöfin kæmi kannski einhverjum á óvart en að hún snertir sannarlega við okkur öllum. Gjöfi sem um ræðir er ljósmynd sem Sigurgeir Jónasson tók af einu stærsta björgunarverkefni sem björgunarfélagið hefur fengið á sínum 100 starfsárum, sem er Pelagus slysið.
„Björgunarfélagið er góður og mikilvægur samstarfsaðili lögreglunnar í Vestmannaeyjum og á embætti lögreglustjóra gott samstarf við félagið og hefur átt lengi. Það er nokkuð lýsandi fyrir Eyjamenn hvernig stofnun félagsins bar að. Slysin sem fylgdu vélbátavæðingunni vöktu menn til umhugsunar og það þótti ekki lengur boðlegt að senda sjóhrakta menn, nýsloppna úr sjávarháska aftur út í illviðri til að leita að bátum sem skiluðu sér ekki til lands. Menn sáu að þeir þurftu ferskan mannskap og björgunarskip og í kjölfarið var félagið stofnað. Það er ekki beðið eftir björginni, menn gera hér það sem þarf að gera.
Þeir sem veljast til starfa í björgunarfélagi eru jafnan fórnfúst fólk sem starfar í félaginu af þeirri hugsjón að vilja hjálpa öðrum. Þetta er fólk sem veður út í vitlaust veður og alvarlegar aðstæður þegar aðrir forða sér. Starfið er sjálfboðaliðastarf sem krefst þess að menn hlaupi frá sínum verkefnum og fjölskyldum þegar það kemur útkall. Samfélagið er þakklát ykkur sem þar starfið.“ sagði Páley í ræðu sinni.
Hún sagði einnig að þegar kom að því að ákveða hvað þau hjá embætti Lögreglustjórans í Vestmannaeyjum ættu að gefa nágrönnum sínum og samstarfsfélögum í 100 ára afmælisgjöf komu margar hugmyndir. „Sú sem varð ofan á kemur kannski einhverjum á óvart en hún snertir sannarlega við okkur öllum. Stærsta björgunarverkefni sem björgunarfélagið hefur fengið á sínum 100 starfsárum var án efa Pelagus slysið, þegar belgískur togari strandaði við Prestavík austur á Eyju 21. janúar 1982 með átta menn innanborðs. Sex mönnum var giftusamlega bjargað af skipinu við hrikalega erfiðar aðstæður, undir 15 metra háum hömrum, í brotsjó, 17 m/sek og næturmyrkri. Þessa atburðar er einnig minnst sem mesta harmleiks sem orðið hefur í íslenskri björgunarsögu þar sem tveir björgunarmenn fórust og var það í fyrsta skipti sem það hafði gerst á Íslandi. Hannes Kristinn Óskarsson, 24 ára, sveitarforingi hjálparsveitar skáta og Kristján K. Víkingsson, 32 ára, læknir fórnuðu lífi sínu við að reyna að bjarga 17 ára pilti sem var viti sínu fjær af hræðslu og þorði ekki undan hvalbaknum á skipinu.
Þessi atburður var aðstandendum, björgunarfólki og öllum Vestmannaeyingum afar þungbær og ég man eftir þessum sorgardegi í janúar og harminum sem honum fylgdi þó ég hafi aðeins verið 7 ára.
Þrátt fyrir mikinn harmleik er þessi atburður hluti af sögu okkar og hann markar okkur. Við heiðrum minningu þeirra sem fórust í slysinu best með því að tala um þá, afrek þeirra, manngæsku og fórn. Við þurfum líka að læra af þeim aðstæðum sem þarna sköpuðust og horfast í augu við þá staðreynd að við misstum þarna tvo menn. Ég leitaði til fjölskyldu Hannesar um mat á því hvort gjöf sem minnir á slysið væri þeim á móti skapi en svo var alls ekki. Kann ég þeim þakkir fyrir það.
Embættið leitaði í smiðju Sigurgeirs Jónassonar, ljósmyndara til þess að velja ljósmynd til stækkunar af strandstað og nutum við dyggrar aðstoðar Sigurgeirs við val á mynd. Sigurgeir tók mikið af ljósmyndum af björgunarstörfum vegna slyssins sem nú eru í eigu ljósmyndasafns Vestmannaeyja.
Gjöf lögreglunnar til björgunarfélagsins er innrömmuð ljósmynd af Pelagus á strandstað í brimrótinu með björgunarmönnum uppi á hvalbak, í björgunarstól og í landi. Myndin er gefin til minningar um félaga ykkar Hannes K. Óskarsson og Kristján Víkingsson. Áletruð silfurplata er á myndinni þar sem stendur:
100 ára afmæli Björgunarfélags Vestmannaeyja 04.08.2018
Til minningar um Hannes K. Óskarsson, f. 19.12.57 og Kristján K. Víkingsson, f. 26.06.49
er fórust við björgunarstörf á strandstað Pelagus 21.01.1982.Hafið þakkir fyrir ykkar mikilvæga framlag til samfélagsins
Lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum
Auk þess að vera til minningar um Hannes og Kristján er myndinni ætlað að vera til áminningar til ykkar allra sem sinnið björgunarstörfum að það er aldrei of varlega farið,“ sagði Páley að endingu í ræðunni sinni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst